„Þetta eru yndislegar fréttir“

Stöðu túlkunarsjóðsins var mótmælt á Austurvelli fyrr í mánuðinum. Nú …
Stöðu túlkunarsjóðsins var mótmælt á Austurvelli fyrr í mánuðinum. Nú er búið að bæta í sjóðinn. mbl.is/Anna Marsý

„Við fögnum þessu auðvitað. Þetta eru yndislegar fréttir,“ segir Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, í samtali við mbl.is, en fyrr í dag var sagt frá því að ríkisstjórnin hefði ákveðið að veita sex millj­ón­um króna til viðbót­ar til tákn­mál­stúlk­un­ar í dag­legu lífi. 

Undanfarnar vikur hefur verið umræða um bága stöðu túlkunarsjóðs. „Það er mjög erfitt að standa frammi fyrir fólki og neita því um túlkun þegar það þarf að eiga mikilvæg persónuleg samskipti,“ segir Valgerður.

Hún segir að þessar sex milljónir breyti miklu fyrir túlkaþjónustu. „Í fyrra reiknuðum við með því að okkur dygðu um 29 milljónir til þess að sinna þeirri eftirspurn sem var það ár,“ segir Valgerður, en sjóðurinn fékk á síðasta ári framlag upp á 23,6 milljónir. „Þannig við teljum að þetta muni breyta mjög miklu. En við vitum náttúrulega ekki hvernig eftirspurnin mun þróast næstu árin.“

Fleiri farnir að þekkja rétt sinn

Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu hef­ur um­sókn­um í sjóðinn fjölgað á und­an­förn­um árum.  Árið 2010 voru 2.108 klukku­stund­ir túlkaðar en 2.555 klukku­stund­ir árið 2014. Á sama fimm ára tíma­bili fjölgaði not­end­um end­ur­gjalds­lausrar túlkaþjón­ustu úr 161 í 193. Árið 2013 var fram­lag til sjóðsins 18,6 millj­ón­ir króna, 23,6 millj­ón­ir króna árið 2014 og heild­ar­fjár­hæð á yf­ir­stand­andi verður 30,6 millj­ón­ir króna.

„Eftirspurnin hefur aukist með hverju ári að hluta til vegna þess að fólk sem er vant að vera einangrað er farið að vita að það á rétt á þjónustu. Einnig eftir að túlkaþjónusta kom til og Samskiptamiðstöðin tók til starfa hefur fólk öðlast menntun og fólk sem er að mennta sig þarf að eiga meiri samskipti,“ segir Valgerður og bætir við að góð atvinnuþátttaka sé meðal heyrnarlausra.

Nú þarf að setja lög

Næst á dagskrá er að sögn Valgerðar að setja lög um túlkaþjónustu. „Það er mjög ánægjulegt að það sé kominn friður út af þessu máli og ég er bjartsýn á að á þeim friðartímum verði unnið að því að setja lög um rétt heyrnarlausra um að sækja sér túlkaþjónustu í daglegu lífi. Það eru engin lög um það í gildi og það er nauðsynlegt að breyta því.“

Fyrri fréttir mbl.is:

Veita sex milljónir til táknmálstúlkunar

Þöndu vél­arn­ar fyr­ir heyrn­ar­lausa

Heyrn­ar­laus­um ít­rekað mis­munað

„Fylgja þessu stress og von­brigði“

„Þetta er nátt­úru­lega drullu­fúlt“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert