Hóta eyríki vegna hvalveiða Íslands

Dýraverndarsamtökin Avaaz hafa hafið undirskriftasöfnun á netinu í því skyni að þrýsta á stjórnvöld í eyríkinu St. Kitts og Nevis að afturkalla skráningu flutningskips sem til stendur að sigli norður fyrir Rússland með íslenskt hvalkjöt á markað í Japan.

„Íslenski hvalveiðiflotinn leggur brátt úr höfn til þess að drepa 150 hvali í útrýmingarhættu. Við höfum komist nálægt því að stöðva þessar villimannlegu veiðar og núna er tækifæri til þess að gera það endanlega,“ segir á vefsíðu samtakanna. Vakin er athygli á fyrirhugaðri ferð flutningaskipsins til Japans og að skipið sé skráð í eyríkinu.

„Ef litla Karíbaþjóðin St. Kitts og Nevis einfaldlega fjarlægir fánann sinn af skipinu getur það ekki siglt úr höfn! Ferðamannaiðnaður er helsta stoð efnahagslíf eyríkisins og við getum sett orðspor þeirra í hættu með því að vekja alþjóðlega athygli á málinu,“ segir ennfremur. Þá segir að dýraverndarsamtök hafi þegar fengið Evrópuríki til þess að hafna hvalveiðum.

„Við skulum núna fá St. Kitts og Nevis til þess að hætta að aðstoða hvalveiðimennina,“ segir ennfremur. Reynt verði að setja þrýsting á nýjan forsætisráðherra landsins. Bregðist hann ekki hratt við verði spjótum samtakanna beint að hagsmunum þess í ferðamennsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert