Reykjavík og Samtökin '78 gera samninga

Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtaka '78, og Ellý Katrín Guðmundsdóttir, …
Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtaka '78, og Ellý Katrín Guðmundsdóttir, borgarritari, skrifa undir samningana.

Reykjavíkurborg og Samtökin '78 undirrituðu í dag tvo samninga sem kveða á um greiðslu borgarinnar til samtakanna er varða rekstur samtakanna annars vegar og þjónustu hins vegar. Samtals hljóða samningarnir upp á 15 milljónir króna sem dreifast á þrjú ár.

Samkvæmt samningunum munu Samtökin '78 sinna fræðslu í grunnskólum Reykjavíkurborgar, bæði til nemenda og starfsfólks, um stöðu samkynhneigðs, tvíkynhneigðs, pankynhneigðs, asexual, intersex og transgender fólks, nefnt hinsegin fólk. Einnig verður greitt til reksturs samtakanna, fræðslu og ráðgjafaþjónustu, að því er segir í fréttatilkynningu.

Markmið með samningi um fræðslu í grunnskólum er að samtökin skipuleggi og framkvæmi fræðslufundi fyrir nemendur, kennara og aðra þá sem starfa hjá grunnskólum Reykjavíkurborgar. Langtímamarkmið fræðslustarfsins er að gera kennara og aðrar fagstéttir smám saman sjálfbjarga í fræðslu um málefni hinsegin fólks.

Markmið með samningi um þjónustu við hinsegin fólk er að samtökin sjái um skipulagða fræðslu fyrir starfsstéttir og áhugahópa sem og sérstaka fræðslu fyrir fagaðila hjá Reykjavíkurborg. Fræðslan verður skipulögð í samráði við framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðva að frumkvæði samtakanna.

Tveir ráðgjafar skulu starfa fyrir samtökin sem sinna stuðningsviðtölum við hinsegin fólk á öllum aldri og aðstandendur þess. Viðtölin fara fram í húsnæði þeirra. Auk þess munu starfa stuðningshópar fyrir hinsegin ungmenni.

Líf Magneudóttir, formaður mannréttindaráðs, sagði við undirritun samninganna það vera mikilvægt að stjórnvöld stæðu með hvers kyns mannréttindabaráttu og störfuðu með og hlustuðu á raddir þeirra sem væru í framlínu þeirrar baráttu. Þess vegna væri það gleðiefni að Reykjavíkurborg skyldi endurnýja samninginn við Samtökin '78 með áherslu á aukna fræðslu í skólum í samstarfi við kennara og Jafnréttisskólann og aukna ráðgjöf til viðkvæms hóps hinsegin fólks. Hún sagði samninginn mikilvægan lið í því að styðja Samtökin enn frekar í baráttu gegn fáfræði og fordómum og hann yrði vonandi bæði ríki og öðrum sveitarfélögum hvatning til að gera álíka samninga.

Hilmar Hildarson Magnúsarson, formaður Samtakanna 78, sagði að um mikilvægan áfanga væri að ræða. „Reykjavíkurborg sýnir hér í verki stuðning við baráttu hinsegin fólks. Borgin hefur um árabil reynst ötull bakhjarl hinsegin samfélagsins og farið á undan með góðu fordæmi. Það er því sérstakt ánægjuefni að skrifa undir samkomulag sem staðfestir þann ásetning borgaryfirvalda að hvika hvergi af þeirri braut og þvert á móti stórefla stuðninginn. Gleymum því ekki að þetta varðar ekki hinsegin fólk eingöngu.

Þetta varðar fjölskyldur þess, vini og í raun samfélagið allt. Stuðningur við lífshamingju og mannvirðingu minnihlutahópa, í þessu tilfelli hinsegin fólks, sendir einfaldlega þau skilaboð að hér viljum við byggja gott samfélag þar sem er pláss fyrir okkur öll. Því ber að fagna.“

Samningarnir gilda frá undirritun og til 31. desember 2017.

Samningur um fræðslu í grunnskólum Reykjavíkurborgar um stöðu samkynhneigðs, tvíkynhneigðs, pankynhneigðs, asexual, intersex og transgender fólks, hér eftir sameiginlega nefnt hinsegin fólk

Samningur um þjónustu við samkynhneigt, tvíkynhneigt, pankynhneigt, asexual, intersex og transgender fólk, hér eftir sameiginlega nefnt hinsegin fólk

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert