Annað stærsta kvennamót sumarsins

Knattspyrnusvæði bæjarins var fullt af lífi um helgina, en hátt …
Knattspyrnusvæði bæjarins var fullt af lífi um helgina, en hátt í 500 leikir voru spilaðir þar. Mynd/Ingvi Hrannar

Rúmlega eitt þúsund keppendur mættu til leiks á Landsbankamóti Tindastóls á Sauðárkróki um helgina, en það er fótboltamót fyrir stúlkur í 6. og 7. flokki. Mótið hefur aldrei verið jafn stórt og segir skipuleggjandi þess að þetta sé nú orðið annað af tveimur stærstu kvennamótum landsins með Símamótinu.

Um 1000 stúlkur komu til að keppa á mótinu.
Um 1000 stúlkur komu til að keppa á mótinu. Mynd/Ingvi Hrannar

„Allt gekk eins og í sögu, veðrið lék við okkur alla helgina,“ segir Ingvi Hrannar Ómarsson, einn skipuleggjenda mótsins, en hann hefur haldið utan um það síðustu þrjú árin. Segir hann að 130 lið hafi tekið þátt í ár, en heildarfjöldi leikja var rétt tæplega 500 á laugardaginn og sunnudaginn.

Ingvi Hrannar segir að með keppendum hafi um 3.000 manns komið til bæjarins vegna mótsins, en þar er um að ræða foreldra, systkini og aðra aðstandendur keppenda. Segir hann að auk mótsins hafi verið full dagskrá bæði fyrir stúlkurnar og fjölskyldur þeirra. Þannig hafi verið hoppukastalar á svæðinu, farið hafi verið í sundferðir og þá var stór kvöldvaka á laugardagskvöldið. Um helgina fóru svo Lummudagar fram á Sauðárkróki og nágrenni, þannig að nóg var að gera fyrir alla.

Landsbankamótið 2015.
Landsbankamótið 2015. Mynd/Ingvi Hrannar

Hann segir að mót sem þetta geri heilmikið fyrir bæinn. Þannig hafi allir veitingastaðir og gististaðir verið fullir og verslun aukist mikið. „Það er lyftistöng fyrir bæjarlífið að fá svona marga gesti,“ segir Ingvi Hrannar, en hann telur að mótið þétti líka fólki saman í bænum. „Það gerir samfélagið sterkara og betra, það eru margir sem koma að þessu,“ segir hann, en á bilinu 200 til 300 heimamenn komu að skipulagi og framkvæmd mótsins í sjálfboðavinnu.

Landsbankamótið 2015 á Sauðárkróki.
Landsbankamótið 2015 á Sauðárkróki. Mynd/Ingvi Hrannar

Þetta var í 10. skiptið sem mótið er haldið, en auk þess fer fótboltamót fyrir drengi í 5. til 7. Flokki fram í ágúst í bænum. Heitir það mót Króksmótið og hefur einnig verið haldið mörg undanfarin ár.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert