Gleðin stendur upp úr

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður Ungmennafélag Íslands.
Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður Ungmennafélag Íslands.

Landsmót UMFÍ 50+ lauk á Blönduósi nú síðdegis í dag, en mótið hafði staðið alla helgina. Mótið var haldið í fimmta sinn og voru keppendur um 400 talsins. Keppt var í mörg­um grein­um eins og t.d. boccia, sundi, hestaíþrótt­um, frjáls­um íþrótt­um, bridds og lom­ber svo eitt­hvað sé nefnt.

„Ég er í skýjunum með mótið sem tókst með afbrigðum vel. Veðrið lék við okkur allan tímann, þátttakan góð, dagskráin vel skipulögð og keppnin öll gekk eins og í sögu. Þetta verkefni er rosalega skemmtilegt og það sem stendur upp úr er öll þessi gleði, allir þakklátir og það er þetta sem gefur þessu svo mikið gildi,“ ef haft eftir Helgu Guðrúnu Guðjónsdóttur, formanni Ungmennafélags Íslands, í tilkynningu frá félaginu.

Helga Guðrún sagði landsmótin vera stór verkefni innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Næsta verkefni væri unglingalandsmótið á Akureyri sem er mjög stórt mót. Landsmót 50+ er á hverju ári, stóra landsmótið síðan á fjögurra ára fresti og því eru öll þessi mót klárlega eitt af stærri verkefnunum.

„Það er ástæða til að hlakka til næsta Landsmóts UMFÍ 50+ og ég hvet alla til að skella sér á mótið á Ísafirði á næsta ári. Það er einhvern veginn sama hvar við höldum þessi mót því þau fá öll sinn sérstaka brag. Ég held að á Ísafirði eigi fólk eftir að kynnast einhverju sem það hefur aldrei kynnst áður. Ég er full tilhlökkunar og þessi mót eiga bjarta framtíð fyrir sér,“ sagði Helga Guðrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert