Hoppaði inn í húllið

Hefði einhver sagt bókaorminum og sagnfræðingnum Unni Maríu Bergsveinsdóttur fyrir nokkrum árum að hún ætti eftir að hafa lífsviðurværi sitt af húllahoppi í sirkus hefði hún eflaust skellt upp úr. Og þó. Hún er nefnilega týpan sem útilokar aldrei neitt í þessu lífi. Sirkusferillinn hófst á götum úti í Mexíkó, landi þar sem byssubardagar eru daglegt brauð. Sjálf fór hún ekki varhluta af skálmöldinni. 

Hún bíður eftir mér í sólinni fyrir utan Ármannsheimilið í Laugardalnum. Unnur María Bergsveinsdóttir er auðþekkjanleg á dreddlokkunum og húðflúrinu. Útlit sem kemur heim og saman við ferilsskrána en hún er ekki bara húlladrottning Sirkus Íslands, heldur líka með meistaragráðu í pönki. Sirkusbakteríuna krækti Unnur María sér í á götum Mexíkó. Nema hvar? Besti dagur sumarsins er að ná hámarki og við þurfum ekki að hugsa okkur um lengi. 

Sirkus Íslands hefur verið starfræktur frá árinu 2007 og eftir að hafa haldið nokkrar sýningar eignaðist sirkusinn sitt eigið sirkustjald í fyrra og gat þá í fyrsta skipti farið í ferð um landið. Sá leikur verður endurtekinn í sumar og fyrirhugaðar eru sýningar í Reykjavík, á Fáskrúðsfirði, Siglufirði, Blönduósi og í Vestmannaeyjum, þar sem fyrsta sýning sumarsins verður á fimmtudaginn kemur á Goslokahátíð.

Unnur María segir sirkusinn hafa rennt blint í sjóinn í fyrra en viðtökur hafi verið vonum framar. „Fólk tók okkur afskaplega vel og þetta var virkilega skemmtilegt. Við lærðum margt í fyrra, maður rekur sig alltaf á einhverja veggi þegar svona lagað er gert í fyrsta sinn, og í sumar ættum við að geta tekið þessa ferð í nefið,“ segir hún brosandi.

Umfang sýningarinnar er mikið, listamennirnir eru átján og með öllu starfsfólki telur hópurinn sem fer hringinn í kringum þrjátíu. „Þrír Íslendinganna eru í háskólanámi í sirkusfræðum í Hollandi og koma með brasilíska skólasystur sína með sér sem mun fetta sig og bretta á allan mögulegan og ómögulegan hátt. Auk þess munu slást í för með okkur vinir frá Frakklandi, Nýja Sjálandi, og Bandaríkjunum.“

Hrunið sendi mig af stað

Spurð um bakgrunn sinn svarar Unnur María því til að hún sé bókaormur og sagnfræðingur. Það er eflaust ekkert verri leið inn í sirkuslistir en hver önnur. Haustið 2008 var hún verkefnastjóri Miðstöðvar munnlegrar sögu en fjárveitingar til þess verkefnis voru skornar niður vegna Hrunsins. Unnur María ákvað þá að venda kvæði sínu í kross og fara í ferðalag til Mexíkó. „Það má segja að Hrunið hafi sent mig af stað. Frændi minn bjó þá í Mexíkó og er giftur þarlendri konu og sumarið áður hafði ég setið fyrir hjá áhugaverðum ljósmyndara sem bjó í Mexíkóborg. Þessi tengsl vöktu hjá mér áhuga á því að kynnast þessu framandi landi. Upphaflega ætlaði ég að vera í hálft ár en árin urðu rúmlega þrjú.“

Upphaflega ætlaði Unnur María áfram til Suður-Ameríku en ekkert varð af því, þar sem henni líkaði svo vel í Mexíkó. „Það bíður bara betri tíma. Ég hef soldið grínast með frasann „aldrei fór ég suður“ í samhengi við upprunalegu ferðaplönin...“

Fljótlega eftir að hún kom út kynntist Unnur María hópi götulistamanna og úr varð að hún slóst í hópinn. „Í upphafi var ég þessi með hattinn og fyrsta setningin sem ég lærði í mexíkósku var: „Viltu tipsa?“

Hún hlær.

Sirkuslistirnar, sem hópurinn framkvæmdi, heilluðu Unni Maríu og hún fór að spreyta sig á þeim. Hún lærði fyrst að jöggla og síðan tók hún til við að klifra í silki. „Ég var þrítug og hélt satt best að segja að ég væri orðin of gömul til að læra svona lagað. Það var öðru nær. Ég prófaði ýmislegt en fannst á endanum langskemmtilegast að húlla. Ég æfði mig og æfði og eftir um hálft ár var ég farin að sýna með hópnum.“

Unnur María húllar ekki bara með venjulegum hringjum, heldur einnig járnhringjum, ljósahringjum og eldhringjum og oftar en ekki eru fleiri en einn og fleiri en tveir hringir á lofti.

Fljót að læra tungumálið

Ágætlega gekk að lifa af götulistinni í Mexíkó og Unnur María ferðaðist vítt og breitt um landið með hópnum. Hún talaði ekki stakt orð í mexíkósku en var fljót á bragðið. „Ég tala frönsku, bjó tvö ár í Frakklandi og var í háskóla þar síðara árið og það hjálpaði til. Ég skildi málið orðið vel eftir hálft ár og eftir heilt ár var ég farin að tala svo mikið að fólk þurfti að segja mér að þegja,“ rifjar hún upp hlæjandi.

Unnur María talar svokallaða „lágstéttar-mexíkósku“, sem er auðvitað afskaplega viðeigandi fyrir götulistamann. „Síðast þegar ég var í heimsókn í Mexíkó átti að okra á mér á mörkuðum, eins og hverjum öðrum ferðamanni, en þegar ég opnaði munninn var strax slegið af um helming.“

Hún hlær.

Í hugum okkar sem hokrum hér við nyrstu voga er Mexíkó stórhættulegt land, þar sem átök og mannvíg eru daglegt brauð. Unnur María staðfestir það. „Mexíkó er, hvað ákveðin svæði varðar, stórhættulegt land. Því miður. Það er auðveldlega hægt að lenda í kúlnahríð á götu úti.“

– Og lentir þú í því?

„Já, ég lenti í því í borginni Torreon.“

– Var skotið á þig?

„Nei, tvær klíkur byrjuðu skyndilega að skjóta hvor á aðra og þá var ekki um annað að ræða en að flýja inn á næsta veitingastað. Vertinn var eldsnöggur að læsa öllu og fara með okkur gestina inn í bakherbergi. Þar var svo beðið. Maður fer ekkert út að kíkja þegar kúlur byrja að fljúga á þessum slóðum. Þetta er svolítið öðruvísi en hérna heima.“

Segðu!

„Á sumum stöðum fer maður ekkert út eftir myrkur. Það er auðvitað stórskrýtið að venjast svona hlutum og fara að þykja þetta eðlilegt en fólk lærir að lifa með þessu. Það er ekkert annað hægt að gera.“

Unnur María.
Unnur María.
Unnur María Bergsveinsdóttir sirkuskona
Unnur María Bergsveinsdóttir sirkuskona Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert