„Kaflarnir orðnir feitir af olíu“

Borgarfjarðarbrú. Vegakaflinn sem um ræðir er sunnan við brúna.
Borgarfjarðarbrú. Vegakaflinn sem um ræðir er sunnan við brúna. Morgunblaðið/Theodór Kr. Þórðarson

Á stuttum vegkafla rétt suður af Borgarfjarðabrú hefur undanfarið blætt upp úr veginum þannig að bik getur fests við dekk og bíla. Hitastig undanfarinna daga hefur ýtt undir þessa blæðingu og þarf Vegagerðin að setja sand á veginn til að stöðva hana. Gert er ráð fyrir viðgerðum í sumar, en þá þarf veðrið að vera aðeins kaldara.

Á kaflanum sem um ræðir hefur yfirborð vegarins tapað steinefnum sem eru í veginum og eftir stendur bikið. Ingvi Jens Árnason, deildarstjóri hjá Vegagerðinni í Borgarnesi, segir í samtali við mbl.is að ekki sé um venjulegt malbik að ræða heldur klæðingu. Segir hann að þessi kafli hafi verið lagður í fyrra, en þurft hefur að sanda hann nokkrum sinnum vegna blæðingarinnar. Segir hann að það gangi ekki upp til lengdar og áformað sé að ný yfirlögn verði lögð í sumar.

Þarf að laga þetta sem fyrst

„Það þarf að gera það núna sem fyrst,“ segir Ingvi og bætir við að menn hafi áhyggjur af þessu, þó ekki sé gert ráð fyrir að kaflinn muni valda skemmdum á bílum. „Þetta hefur sloppið þannig að ekki hefur rifnað upp mjúkt bik og safnast á hjól,“ segir hann. Hins vegar hafi verið um að ræða smit og steinar úr veginum loða við dekkin.

Lýsir Ingvi þessu þannig að í veginn sé blandað steinefnum og mýkingarefni, sem í  þessu tilfelli sé fiskiolía. Það sem hafi gerst er að steinefnin hverfa úr veginum, t.d. vegna mikillar söltunar og snjóruðnings. Það sem eftir standi sé því mýkingarefnið. Þannig séu „kaflarnir orðnir feitir af olíu,“ að sögn Ingva.

Hátt hitastig vandamál

Hann segir að vandamálið sé þó að til þess að leggja nýja yfirlögn þurfi aðeins kaldara veður en spáð er á næstu dögum.

Síðustu ár var nokkur umræða um íblöndunarefni í vegagerð hér á landi og hvort það stytti endingartíma veganna. Ingvi segir að ekki sé hægt að rekja þetta atvik til þess að verið sé að nota fiskiolíu í stað terpentínu. Segir hann að mögulega sé nýja mýkingarefnið úr fiskolíunni viðkvæmara, en það séu þó aðrir þættir sem spili þarna inn í.

Frá Borgarnesi.
Frá Borgarnesi. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert