Karlmennska er femínismi

Hugleikur Dagsson og Anna Tara Andrésdóttir.
Hugleikur Dagsson og Anna Tara Andrésdóttir. Eggert Jóhannesson

Anna Tara Andrésdóttir og Hugleikur Dagsson eru með útvarpsþáttinn Kynlegir kvistir á Rás 2. Í þættinum taka þau fyrir málefni sem er þeim ofarlega í huga og tengist samskiptum kynjanna. Anna Tara hefur haft áhuga á þessum efnum frá því hún var unglingsstúlka, er með diplóma í kynjafræði og í tveimur hljómsveitum, Reykjavíkurdætrum og Hljómsveitt. Hugleik þekkja flestir, teiknimyndahöfundur og grínisti.

Anna Tara og Hugleikur hafa orðið góðir vinir í gegnum samvinnu sína með þættina en áður þekktust þau ekki. „Ég byrjaði fyrst með þáttinn á X-inu 977 með frænku minni Katrínu og var þátturinn í loftinu í átta mánuði,“ segir Anna Tara. „Katrín var orðin svo upptekin enda margt farið að bætast við á hennar dagskrá sem bitnaði svolítið á þættinum svo að hún ákvað að hætta. Ég var ein með þáttinn um stund en honum var síðan sagt upp eins og öllum öðrum um leið þar sem eitthvert óvissuástand myndaðist. En það varð bara til þess að ég hafði samband við Rás 2 og vildi fá Hulla með mér að stýra þættinum þar.“

Í þættinum fara þau um víðan völl og hafa meðal annars rætt um staðalímyndir, karlmennsku, nauðgunarmenningu, femínisma, kynlífsfíkn og BDSM. Er þörf á slíkum þætti, sem fjallar um kynlíf og kynjafræði?

„Já, virkilega mikil þörf! Þarna höfum við gott rými til að tala um marga hluti á því sviði og frá ólíkum sjónarhornum,“ segir Anna Tara. „Markmiðið með þáttunum er einnig að tala okkur alltaf nær hvort öðru og koma fyrir örlitlum skilningi hjá hlustendum. Það sem mér finnst mikilvægt er ekki bara að aðrir skilji mig heldur einnig að ég skilji aðra. Það kemur mér líka á óvart hvað það er enn stór slagur að taka við samfélagið að vilja ræða kynlíf á fræðilegum nótum, því fylgir mikill stimpill. Það er nokkuð ljóst að það er sérstaklega mikil þörf að setja þetta tvennt saman, kynjafræði og kynlíf.“ Einnig megi stuðla að kynjafræðikennslu hjá ungmennum snemma og þykir þeim þörf á því að færa kennsluna allt niður í grunnskólaaldur.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert