Friðarkyndillinn tendraður í jökli

Friðarkyndillinn í ísgöngunum.
Friðarkyndillinn í ísgöngunum. Apaguha Vesely

Dagana 1.-24. júlí fer fram Sri Chinmoy-heimseiningar Friðarhlaupið um allt Ísland, en þá mun 12 manna alþjóðlegur hópur hlaupara hlaupa á milli byggða með logandi friðarkyndilinn. Kveikt var á kyndlinum inni í Langjökli í dag. Öllum gefst færi á að taka þátt, en sérstök áhersla er lögð á þátttöku barna og ungmenna. Friðarhlaupið er alþjóðlegt hlaup og fer fram um heim allan.

Apaguha Vesely

„Kveikt var á kyndlinum inni í jöklinum og síðan tóku menn nokkur táknræn skref á jöklinum og inni í göngunum. Að því loknu er keyrt með menn niður af jöklinum þar sem þeir keyra til Reykjavíkur,“ sagði Torfi Leósson, einn skipuleggjenda friðarhlaupsins, í samtali við mbl.is. 

Skipuleggjendur völdu þann stað því að hann endurspeglar frið og sérstöðu Íslands og er í samræmi við þau orð Sri Chinmoy, stofnanda friðarhlaupsins, að Ísland er frumkvöðull í friðarmálum, bæði hvað varðar friðinn í hjarta þjóðarinnar og í náttúrunni.

Apaguha Vesely

„Okkur langaði að velja stað sem sýnir sérstöðu Íslands og þá er tilvalið að vera á jökli. Sri Chinmoy kom til Íslands einu sinni og hélt ræðu um Ísland og hvað landið væri mikill frumkvöðull í friðarmálum, bæði þjóðin og einnig landið. Það væri friður í náttúrunni og jafnframt í fólkinu.

Hlauparar spretta úr spori frá jöklinum til Reykjavíkur eftir að kveikt hefur verið á kyndlinum. „Þar verður opnunarathöfn 1. júlí og að því loknu verður hlaupið hringinn í kringum landið eftir strandlengjunni. Við leggjum áherslu á að koma á sem flesta þéttbýliskjarna og á að gefa krökkum tækifæri til að taka þátt. Við reynum annað hvert ár að hlaupa hringinn, yfir sumartímann. Hitt árið förum við þegar skólar eru enn í gangi og þá geta krakkar auðvitað hlaupið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert