Semja um starfslok við 14 manns

Frá Hafnarfirði.
Frá Hafnarfirði. mbl.is/Styrmir Kári

Tilfærslur og breytingar á mannahaldi munu fylgja þeim breytingum sem Hafnarfjarðarbær hefur kynnt á stjórnskipulagi bæjarins. Engum hefur verið sagt upp störfum en breytingarnar munu snerta 28 manns. Helmingnum verður boðin tilfærsla í starfi en samið verður um starfslok við hinn helminginn.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðarkaupstaðar, segir í samtal við mbl.is að unnið sé að því að ræða og fara yfir þessar breytingar með starfsfólki bæjarins.

„Það er ekki búið að segja neinum upp,“ segir hún og bætir við að engin uppsagnarbréf verði send út fyrir næstu mánaðamót. 

Í tilkynningu sem Hafnarfjarðarbær sendi frá sér fyrr í dag, kom fram að á aukafundi í bæjarstjórn í morgun hafi verið samþykktar breytingar á á stjórnskipulagi Hafnarfjarðarkaupstaðar.

„Hjá bænum verða fjögur þjónustusvið og tvö stoðsvið. Þjónustusviðin snúa einkum að þjónustu við bæjarbúa en verkefni stoðsviðanna miða að því að styðja við framkvæmd verkefna á þjónustusviðunum.

Stjórnskipulag bæjarins mun eftir breytingarnar skiptast í fjölskylduþjónustu, fræðslu- og frístundaþjónustu, umhverfis- og skipulagsþjónustu og hafnarþjónustu. Stoðsviðin tvö verða stjórnsýslusvið og fjármálasvið.
Í nýju skipuriti er lögð áhersla á að ná fram betri nýtingu á starfskröftum og á sama tíma staðsetja verkefni betur við hlið annarra þar sem ljóst er að samlegð er fyrir hendi,“ segir í tilkynningu bæjarins. 

Þá kemur fram, að helstu breytingar við núverandi stjórnskipulag séu eftirfarandi:

  • verkefni íþrótta- og æskulýðsmála, frístundaheimila og félagsmiðstöðva eru flutt frá fjölskylduþjónustu til fræðslu- og frístundaþjónustu,
  • verkefni skipulags og bygginga eru færð undir svið umhverfis og framkvæmda sem eftir breytingarnar verður umhverfis- og skipulagsþjónusta,
  • hafnarþjónusta verði færð undir verksvið bæjarstjóra.
  • Auk þessa skal innra skipulag hvers sviðs endurskipulagt til samræmis við breytt stjórnskipulag bæjarins.

Nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert