„Sjaldan séð jafnmikinn viðbjóð“

Sóðaskapurinn blasti við á tjaldsvæðinu.
Sóðaskapurinn blasti við á tjaldsvæðinu. Ljósmynd/Haukur Jarl Kristjánsson

„Ég held að sóðaskapur sé frekar vægt til orða tekið. Ég hef aldrei, eða sjaldan, séð jafnmikinn viðbjóð í íslenskri víðáttu á ævi minni. Þetta var virkilega leiðinlegt,“ sagði Haukur Jarl Kristjánsson í samtali við mbl.is. Þegar hann átti leið um Seljalandsfoss í gær blasti við honum rusl út um allt.

Sóðaskapurinn blasti við á sunnudagsmorgun á tjaldsvæðinu við Seljalandsfoss en gestir næturinnar höfðu greinilega brunað burt og látið vera að taka til eftir sig. Að sögn tjaldvarðar var um hefðbundið unglingadjamm að ræða. Tjaldsvæðið var hreinsað strax í gær og þetta var ekkert meira rusl en gengur og gerist, að hans sögn.

Eins og sjá má á myndinni voru þó margir búnir að safna sorpinu í poka áður en svæðið var yfirgefið.

„Við vorum að koma úr Básum í Þórsmörk, sáum þetta og stoppuðum. Það féllu nokkur tár og svo héldum við áfram í bæinn. Það var enginn á svæðinu, allavega ekki á túninu, sem við gátum talað við,“ sagði Haukur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert