„Skelfing er þetta nú aumt“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Skelfing er þetta nú aumt. Voðalega er nú lágt lagst þegar dregnar eru fram svona langsóttar tilraunir til þess að gera það tortryggilegt sem háttvirtur þingmaður, eins og allir aðrir í þessum sal, fagnaði fyrir fáeinum vikum síðan en sér núna væntanlega eitthvað tækifæri í því að búa til tortryggni um þetta mál eins og allt annað.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag þar sem hann svaraði fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Steingrímur innti ráðherrann svara vegna ummæla hans nýverið um að honum og íslensku þjóðinni hafi borist hótanir í tengslum við afnám fjármagnshaftanna. Sagði Steingrímur að væntanlega hefðu þær borist frá kröfuhöfum föllnu bankanna og bað ráðherrann að greina nánar frá því í hverju þær hefðu falist.

„Væri hetja sem léti ekki kúga sig“

Sigmundur fagnaði því að Steingrímur tæki þessa umræðu alvarlega. Hann hefði mátt gera það miklu fyrr. Hótanir hefðu ekki bara legið í loftinu vegna þessa máls heldur líka Icesave-málinu. Þar hefðu stjórnmálamenn tekið að sér að bera Íslendingum hótanir um að illa færi fyrir Íslandi ef skuldbindingar vegna þess máls yrðu ekki lagðar á herðar þjóðarinnar. Svipaðar hótanir hefðu verið viðraðar varðandi afnám fjármagnshaftanna. Ráðamenn hefðu hins vegar ekki látið það hafa áhrif á sig.

Steingrímur sagðist ekki hafa verið að spyrja um Icesave-málið. „Ég hóf ekki máls á þessu hér svona til þess að forsætisráðherra gæti komið því enn einu sinni á frambæri við þjóðina að hann væri hetja sem léti ekki kúga sig eða hóta sér. Það vitum við auðvitað öll, hann er búinn að segja það svo oft sjálfur að það liggur alveg fyrir opinberlega.“ Hann hefði einungis verið að velta fyrir sér hvort eitthvað hefði gerst í þessum sefnum sem Alþingi þyrfti að skoða.

„Háttvirtur þingmaður þarf ekkert að fullyrða um það að ég haldi því fram að ég sé einhver hetja eða hafi geri hitt og þetta. En ef ég ætlaði að læra slíkt af einhverjum þá myndi ég líta til viðtala við háttvirtan þingmann Steingrim J. Sigfússon á síðasta kjörtímabili. Þar skorti ekki lýsingarnar á eigin ágæti.“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert