Tekur mið af umfangi vandans

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mbl.is/Kristinn

„Stöðugleikaskilyrðin eru til þess hönnuð að tryggja það að upphæðin sem um ræðir verði nógu há sama hversu stórt vandamálið reynist,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar.

Árni gerði að umtalsefni sínu muninn á fyrirhuguðum stöðugleikaskatti annars vegar og stöðugleikaskilyrðum hins vegar og vildi meina að munað gæti um 400 milljörðum króna á því hvor leiðin yrði ofan á við uppgjör þrotabúa föllnu bankanna. Minnti hann á að kröfuhafar bankanna væru mun hrifnari af stöðugleikaskilyrðunum. Spurði hann forsætisráðherra hvort hann teldi að nógu vel væri staðið að áformum ríkisstjórnarinnar í þeim efnum.

Sigmundur svaraði því til að fyrirspurn Árna Páls væri sérkennileg í ljósi þess að fyrir skömmu síðan hafi hann ítrekað reynt að eigna sér og Samfylkingunni áform ríkisstjórnarinnar. Nú væri hins vegar reynt að skapa efasemdir um þau. 

Ráðherrann sagði stöðugleikaskilyrðin taka mið af umfangi vandans. Þannig gætu stöðugleikaskilyrðin mögulega skilað hærri upphæð til ríkisins en stöðugleikaskatturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert