Þurfa að semja í dag eða á morgun

BHM og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga boðuðu til þögulla mótmæla við …
BHM og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga boðuðu til þögulla mótmæla við Stjórnarráðið fyrr í mánuðinum. Eggert Jóhannesson

Ef ekki nást samningar í kjaradeilu BHM í dag eða á morgun mun gerðardómur ákveða kaup og kjör félagsmanna samkvæmt lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem stöðvaði verkfallsaðgerðir þeirra og hjúkrunarfræðinga 13.júní s.l. Frumvarp ríkisstjórnarinnar kveður á um að Hæstiréttur tilnefni þrjá menn í gerðardóminn en hann á meðal annars að horfa til annarra kjarasamninga sem þegar hafa verið undirritaðir.

Komi til skipunar gerðardóms á hann að ákveða kaup og kjör félagsmanna BHM fyrir 15. ágúst n.k.

Hjúkrunarfræðingar sömdu við ríkið 23. júní og kemur í ljós 15. júlí hvort að félagsmenn FÍH samþykki samninginn eða ekki. Það er almennt álit meðal hjúkrunarfræðinga sem rætt hafa við mbl.is að samningurinn verði felldur og hefur því verið uppi umræða um hvað gerist í kjölfarið.

Sumir líta svo á að þar sem að samið var í deilunni geti hjúkrunarfræðingar fellt samninginn og sest aftur við samningaborðið eftir 15.júlí. Að mati Láru V. Júlíusdóttur,  lektor við lagadeild Háskóla Íslands og sérfræðingi í vinnurétti, er það ekki svo einfalt. Í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku sagði Lára að líklega verði gerðardómur kallaður til felli hjúkrunarfræðinga samninginn.

Lára benti á að kveðið sé um skipun dómsins í lögum um bann við verkfalli hjúkrunarfræðinga sem samþykkt voru á Alþingi. Þá mun verkfallsbann laganna taka gildi, verði samningurinn felldur.

Lára sagði jafnframt að henni þætti það líklegt að löggjafinn, þ.e. Alþingi, muni grípa í taumanna vakni ágreiningur um túlkun laganna og hjúkrunarfræðingar fari aftur í verkfall ef að samningurinn verði felldur 15. júlí.

Í síðustu viku ræddi Ólafur G. Skúlason, formaður FÍH við mbl.is. Hann sagði þá að skilyrði fyrir skipun gerðardóms hafi brostið þegar félagið samdi við ríkið, enda væri ekki gerð krafa í lögunum um að samningurinn væri samþykktur af félagsmönnum. Hann sagðist jafnframt líta svo á að ekki væri hægt að skipa gerðardóm þó svo að félagsmenn felldu samninginn og þess vegna gætu hjúkrunarfræðingar einfaldlega sest aftur að samningaborðinu með samninganefnd ríkisins.

Ekki hefur verið boðað til fundar í kjaradeilu BHM og ríkisins hjá ríkissáttasemjara. Síðast var fundað þar í deilunni á þriðjudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert