20 stiga hiti á laugardag

Ef marka má spár verður hlýjasti dagur ársins á laugardag.
Ef marka má spár verður hlýjasti dagur ársins á laugardag. mbl.is/Golli

Veðurstofan vekur sérsatklega athygli á því að í dag gengur í norðaustan hvassviðri suðaustanlands og má gera ráð fyrir að víða verði öflugir vindstrengir við fjöll (25-30 m/sek), einkum undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Öræfum.

Þá mun einnig hvessa um landið norðvestanvert, á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Smá saman um draga úr vindi seint í kvöld og á morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands munu skilin þokast hægt og rólega yfir landið. Á morgun má búast við vætu víða um land.

Ef marka má spár verður hlýjasti dagur ársins á laugardag en þá verður hlýjast í innsveitum og um vestan- og norðvestanvert landið og gæti hiti farið upp í 20 gráður.

Sjá nánar: Veðurvefur mbl.is

Veðurhorfur næsta sólarhringinn:

Vaxandi norðaustan átt, bjartviðri um landið vestanvert í dag, en dálítil væta fyrir austan. Norðaustan 15-20 m/s og rigning við SA-ströndina síðdegis, en annars 10-18 m/s, hvassast NV-til. Rignir víða um land í kvöld og nótt, en þurrt að kalla NV-til framan undir morgun. Norðaustan 8-15 og víða væta á morgun, hvassast NV-til, en hægari austanlands. Hiti 12 til 19 stig í dag, en 10 til 17 á morgun, hlýjast á V-landi. Mun svalara með austurströndinni.

Á fimmtudag:
Norðaustlæg átt, 5-10 m/s og víða rigning, einkum A-lands og hiti 5 til 12 stig, en hægari vindur og úrkomulítið suðvestan- og vestanlands og hiti 10 til 16 stig. 

Á föstudag:
Fremur hæg austlæg átt og skýjað að mestu, en skúrir á stöku stað. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast í innsveitum. 

Á laugardag:
Austlæg átt 5-10 m/s og þurrt og bjart að mestu, en 8-13 syðst og dálitlar skúrir. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast norðan- og vestanlands. 

Á sunnudag og mánudag:

Útlit fyrir austan og norðaustan átt. Dálítil væta sunnan- og austantil, en annars skýjað með köflum. Hiti 8 til 19 stig, hlýjast á Vesturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert