Með 6.000 steratöflur

Sterarnir sem lagt var hald á.
Sterarnir sem lagt var hald á. mynd/Tollstjóri

Karlmaður á fertugsaldri varð nýverið uppvís að því að ætla að smygla umtalsverðu magni af meintum sterum og öðrum lyfseðilsskyldum lyfjum til landsins. Tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar stöðvuðu manninn við komu hans frá Berlín.

Efnunum hafði maðurinn, sem er íslenskur, komið fyrir í ferðatösku sinni.

Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um fundinn og handtóku lögreglumenn manninn og færðu hann á lögreglustöð. Mál hans er í rannsókn, að því er segir í tilkynningu frá Tollstjóra.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem tollverðir haldleggja ólögleg efni. Hitt málið kom upp þegar þeir fundu við hefðbundna leit í gámi í skipi í Sundahöfn rúmlega tvö kiló af meintu kókaíni sem hafði verið komið fyrir í bakpoka. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar það mál.

Tollstjóri veitir ekki frekari upplýsingar um ofangreind mál þar sem  þau eru nú í höndum lögreglu, að því er segir í tilkynningu.. Jafnframt er minnt á  fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert