„Nýr kafli í sögu Háskóla Íslands“

Kristín Ingólfsdóttir og eftirmaður hennar sem rektor Háskóla Íslands Jón …
Kristín Ingólfsdóttir og eftirmaður hennar sem rektor Háskóla Íslands Jón Atli Benediktsson. mbl.is/Kristinn

„Grunnurinn er traustur og tækifærin blasa alls staðar við. Möguleikar vísindanna eru í raun óþrjótandi. En við stöndum líka frammi fyrir erfiðum áskorunum. Sú stærsta tengist fjármögnun,“ sagði Jón Atli Benediktsson sem tók í dag við embætti rektors Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn í hátíðarsal skólans.

Kristín Ingólfsdóttir kynnti Jón Atla upp á svið þar sem hann tók formlega við embættinu með orðunum: „Nú hefst nýr kafli í sögu Háskóla Íslands.“ Jón Atli og Kristín hafa lengi starfað saman en hann hefur gegnt stöðu aðstoðarrektors vísinda og kennslu og sagði Kristín hann jafnframt að hafa allt fram að færa til að taka við hennar stöðu. „Jón Atli þekkir starfið vel og hefur til að mynda stofnað nýsköpunarfyrirtæki. Það eru einstaklingar eins og hann sem hafa gert Háskóla Íslands að þeim skóla sem hann er,“ sagði Kristín.

Jón lagði í ræðu sinni áherslu bæði á sérstöðu skólans sem alhliða háskóli sem hefur skyldum að gegna við íslenskt samfélag.

„Við þessi tímamót er hollt að hugleiða stöðu Háskóla Íslands sem er að mörgu leyti sterk um þessar mundir. Háskólinn hefur fest sig í sessi sem öflugur alþjóðlegur rannsóknaháskóli. Við glöddumst yfir þeim árangri að skólinn komst á lista yfir fremstu háskóla heims á aldarafmæli sínu árið 2011 og hefur haldið sér þar síðan. Alþjóðlegt gæðaráð háskóla birti nýlega skýrslu um Háskóla Íslands og eru niðurstöður ráðsins í senn mikil viðurkenning og hvatning fyrir starfsfólk og stúdenta. Nýjustu kannanir Gallups staðfesta einnig að háskólinn nýtur mikils trausts almennings.“ 

„Háskóli er ekki fyrirtæki“

Jón ræddi einnig um akademískt frelsi við skólann og vitnaði þar til orða Páls Skúlasonar fyrrverandi rektors skólans sem féll frá fyrr á þessu ári. 

„Ég vil svo nefna akademískt frelsi sem er kjarni háskólahugsjónarinnar og hornsteinn alls háskólastarfs. Því frelsi fylgir mikil ábyrgð og við þurfum stöðugt að vera á varðbergi gagnvart öflum sem gætu viljað skerða það í þágu stundar- eða sérhagsmuna. Háskóli er ekki fyrirtæki í venjulegum skilningi orðsins heldur samfélag kennara og stúdenta, eins og Páll Skúlason, fyrrverandi háskólarektor, lagði svo ríka áherslu á. Slíkt samfélag fær einungis þrifist ef stúdentar og starfsfólk er óhrætt við að gagnrýna vinnubrögð og aðferðir hvort heldur er í fræðunum eða ákvarðanir sem teknar eru innan skólans eða utan.“

Jón Atli gerði einnig að umræðuefni í ræðu sinni fjárhagsvanda skólans. „Ég leyfi mér að staldra við fjárhagsvandann því öllu skiptir að við horfumst í augu við þá bláköldu staðreynd að án bættrar fjármögnunar er árangri Háskóla Íslands stefnt í hættu. Takist ekki að tryggja fjárhagsgrundvöll háskólans gæti það tekið skólann áratugi að komast aftur í tæri við þau sóknarfæri sem nú blasa við á alþjóðlegum og innlendum vettvangi.“

„Kæru gestir, um leið og ég tek við embætti rektors Háskóla Íslands vil ég færa þakkir fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt. Ég heiti því að sinna þessu starfi af alúð og veit að með ykkar hjálp eflist háskólinn enn frekar“, sagði Jón Atli að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert