Óvænt útskriftarathöfn

Vinahópurinn ásamt Jakobi Frímanni kennara.
Vinahópurinn ásamt Jakobi Frímanni kennara. Úr einkasafni.

„Ég er alveg himinlifandi yfir þessu,” segir Ragnhildur J Holm, nýútskrifaður tómstunda- og félagsmálafræðingur frá Háskóla Íslands, en hún fékk heldur óvenjulega útskriftarathöfn á dögunum.

Ragnhildur var heima í viku vegna veikinda sem svipaði til hettusóttar og komst því ekki á brautskráningu stúdenta í Háskóla Íslands þann 20. júní. „Þvílík sorg í hjarta mínu, ég sat heima og fylgdist með samnemendum mínum taka hópmyndir með plöggin sín og fagna þessum frábæra áfanga sem við náðum,” segir hún.

Hún mætti til vinnu í Burskanum, félagsmiðstöð í Vogaskóla, síðastliðinn mánudag en var sótt af vini sínum og skólafélaga, Jóhanni Páli Jónssyni, í vinnuna. „Hann kemur inn og segir mér að leggja frá mér kaffibollann því að vinnudagurinn sé búinn.”

Vinirnir skelltu sér út á rúntinn og enduðu hjá byggingu háskólans. Þar tóku á móti þeim Jakob Frímann kennari Ragnhildar, klæddur skikkju, ásamt nokkrum nánustu bekkjarsystrum hennar. „Þá sá ég hvað væri í gangi, þau voru að halda mini-útskrift fyrir mig.”

Ragnhildur fékk persónulega ræðu frá Jakobi og var útskrifuð með pompi og prakt. „Í stað þess að þurfa að sitja í tvo tíma og hlusta á upplesin þúsund nöfn, fékk ég yndislega einkaræðu og viðurkenningu.”

Um kvöldið bauð hópurinn henni í óvissuferð á Tapasbarnum þar sem vinirnir skemmtu sér langt fram á kvöld. „Ég er í raun bara enn að jafna mig eftir þetta, það er gaman að vita að einhver hugsi svona fallega til manns.”

Ragnhildur segir tómstunda- og félagsmálafræði vera afar persónulegt nám og samheldnina í hópnum mikla. Hún starfar nú hjá félagasmiðstöðinni Burskanum en ætlar að taka sér frí í sumar og fara til Tyrklands, á Lunga og á Gay pride í ágúst.

Hér að neðan má sjá myndskeið af útskrift Ragnhildar. 

Ragnhildur tekur við skírteininu.
Ragnhildur tekur við skírteininu. Úr einkasafni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert