Senda tvær til Nepal

Ágústa Hjördís Kristinsdóttir
Ágústa Hjördís Kristinsdóttir Ljósmynd/Rauði krossinn

Rauði krossinn á Íslandi hefur sent tvo nýja sendifulltrúa til starfa í Nepal. Lilja Óskarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, og Ágústa Hjördís Kristinsdóttir, bráðahjúkrunarfræðingur, eru lagðar af stað til Chautara í norðurhluta Nepal þar sem þær koma til með að starfa við tjaldsjúkrahús norska Rauða krossins sem reist var í kjölfar risasjálfta sem skók Nepal þann 25. apríl.

Nú þegar hafa tveir íslenskir sendifulltrúar starfað í Chautara, Helga Pálmadóttir, deildarhjúkrunarfræðingur, sem hefur nýlega lokið sendiför sinni, og Ríkarður Már Pétursson, rafiðnfræðingur, sem hefur framlengt sendiför sína allt til loka ágústmánaðar.

Lilja er margreyndur sendifulltrúi en hún hefur meðal annars starfað fyrir Rauða krossinn í Suður-Súdan árið 2000 og sinnt heilsugæslu í kjölfar náttúruhamfara í Pakistan, Haítí og á Filippseyjum. Hún hefur einnig dvalið í Eþíópu um nokkurra ára skeið og er með framhaldsmenntun í trúarbragðafræði.

Ágústa Hjördís fer í sína fyrstu sendiför fyrir Rauða krossinn. Hún er sérfræðingur í bráðahjúkrun og hefur starfað við Landspítalann undanfarin ár. Ágústa Hjördís stundar einnig framhaldsnám í umhverfis-og auðlindafræðum við Háskóla Íslands þar sem hún leggur áherslu á umhverfisvá á þróunarsvæðum.

Lilja Óskarsdóttir.
Lilja Óskarsdóttir. Ljósmynd/Rauði krossinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert