„Það er ekkert töff við þetta“

Jón Kári spilar með liði KV í 2. deildinni í …
Jón Kári spilar með liði KV í 2. deildinni í knattspyrnu og fylgist hér með félaga sínum elta boltann. mbl.is/Eva Björk

„Ég vildi segja mína sögu og hvernig ég fór að því að hætta. Að hætta að taka í vörina er miklu erfiðara en að segja það og það eru margir sem segjast ætla að hætta en standa ekki við það nema í nokkra daga,“ segir Jón Kári Eldon í samtali við mbl.is. Hann neytti munntóbaks í 10 ár en ákvað fyrir ári síðan að láta af þeim ósið. Hann hefur nú opnað síðuna baggerbogg.is þar sem munntóbaksneysla og áhrif hennar eru sett fram á myndrænan hátt. Síðuna hannaði hann sjálfur frá grunni og forritaði.

Notaði twitter til að hætta

„Ég er frekar virkur á twitter og notaði það sem vettvang til að setja markmið fram þannig að fólk sæti þau. Ef þú ert með markmiðin opinber fyrir framan einhvern þá færðu félagslegan stuðning og það gekk vel. Ég hef ekki snert tóbak síðan þetta byrjaði.

„Vita allir að þetta gerir ekkert gott“

Talið er að 28 krabbameinsvaldandi efni séu í tóbakinu. Sá sem notar 10 grömm af tóbaki á dag fær í sig þrefalt meira af krabbameinsvaldandi efnum en sá sem reykir pakka af sígarettum á dag. Talið er að við notkun munntóbaks aukist hættan á því að fólk fái munnkrabbamein verulega. Fyrir utan heilsufarslega áhættu eru ókostirnir fleiri. „Þetta kostar helling. Ég tala nú ekki um fyrir grunnskóla- eða menntaskólakrakka sem hafa engar tekjur en borga 2000 krónur á viku til að eiga í vörina, það er blóðugt.“ Engir kostir fylgi tóbakinu. „Það eru í rauninni bara stælar að tala með munntóbaki. Það vita allir að þetta gerir ekkert gott fyrir þig, þetta þykir bara eðlilegt og mig langaði aðeins að breyta umræðunni. Ég er ekkert að búast við að allir fara að hætta en það er fínt ef fólk fær nýtt sjónarhorn á þetta, með því að sjá þetta myndrænt. Maður sér þetta í raun aldrei myndrænt.

Finnur mun eftir að hann hætti

Jón Kári byrjaði að taka í vörina af því honum þótti það töff. „Þegar ég byrjaði var ég bara gutti í fótbolta og það var töff að taka í vörina og ég viðurkenni það að mér fannst ég frekar svalur þegar ég byrjaði. En það er ekkert töff við þetta, maður verður bara háður þessu. Maður sættir sig við þetta en ætti ekki að sætta sig við þetta. Ég finn gífurlegan mun eftir að ég hætti. Ég fann það fyrst eftir að ég hætti hversu mikið tóbakið stjórnaði mér. Ef ég átti ekki í vörina fór það í skapið á mér.“

Með síðunni segist hann reyna að koma upplýsingum um munntóbak og tóbaksneyslu til fólks á einfaldan hátt. „Ég er að reyna að koma með ferskt sjónarhorn á þessa umræðu um munntóbak. Maður hefur kannski lesið fræðigreinar eftir lækna um rannsóknir, það nær ekkert til manns. Mér fannst síðan gera þetta myndrænt, sýna tölfræðina og ná betur til fólks.“

Heimasíða Jóns Kára

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert