285 hafa sagt starfi sínu lausu

Hjúkrunarfræðingar að störfum á Landspítalanum við Hringbraut.
Hjúkrunarfræðingar að störfum á Landspítalanum við Hringbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

285 starfsmenn á Landspítalanum hafa sagt upp störfum síðustu vikur, þar af 235 hjúkrunarfræðingar. Flestar eru uppsagnirnar á aðgerðasviði spítalans, eða 81 uppsögn. Lífeindafræðingar, ljósmæður og geislafræðingar hafa einnig sagt störfum sínum lausum.

Samkvæmt tölum frá Landsítalanum hefur 81 hjúkrunarfræðingur á aðgerðasviði spítalans sagt starfi sínu lausu, 24 hjúkrunarfræðingar á flæðisviði, 14 á geðsviði, 22 á kvenna- og barnasviði, 49 á lyflækningasviði og 45 hjúkrunarfræðingar á skurðlækningasviði.

Frétt mbl.is: Fagfólk ekki tínt af trjánum

24 starfsmenn innan Félags lífeindafræðinga sem starfa á spítalanum hafa sagt upp störfum Af þeim starfaði tuttugu og einn á rannsóknarsviði og þrír á skurðlækningasviði. Tvær ljósmæður hafa sagt starfi sínu lausu og tuttugu og fjórir geislafræðingar.

Erlendir sérfræðingar leysa af í sumar

Í Morgunblaðinu í dag grein­ir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, frá því, að er­lend­ir sér­fræðing­ar muni leysa nokkra sér­hæfða starfs­menn af í nokkr­ar vik­ur í sum­ar, þannig að hægt verði að fram­kvæma nauðsyn­leg­ustu hjartaaðgerðirn­ar. Þetta sé þó dýrt úrræði og aðeins gert í neyð.

Hann held­ur áfram: „Líf­einda­fræðing­ar á spít­al­an­um eru mjög sér­hæft fag­fólk, ekki síst þeir sem voru að segja upp á sýkla­deild. Þetta er ekki fólk sem maður tín­ir af trján­um. Það sama gild­ir um annað fag­fólk. Um er að ræða sér­menntað fólk, oft með fá­gæta fag­mennt­un.

Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fer fram dagana 4. júlí til kl. 12 þann 15. júlí. Kjaradómur verður skipaður í dag vegna kjaradeilu Bandalags háskólamanna við ríkið þar sem samningar náðust ekki fyrir mánaðarmót. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert