Átti fund um varnarmál í Pentagon

Gunnar Bragi Sveinsson er staddur í heimsókn í Washington.
Gunnar Bragi Sveinsson er staddur í heimsókn í Washington. AFP

Bob Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, tók á móti Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra í Pentagon í dag, þar sem ráðherrarnir ræddu m.a. varnarmál og öryggismál á norðurslóðum.

Í frétt á vef bandaríska varnarmálaráðuneytisins segir að í samantekt um fundinn komi fram að Work hafi fullvissað „Sveinsson“ um skuldbindingu Bandaríkjanna varðandi tvíhliða varnarsamstarf og varnir Íslands, í samræmi við samning ríkjanna um varnarmál frá 1951.

„Leiðtogarnir tveir ræddu mikilvægi tvíhliða sambands Bandaríkjanna og Íslands, aðgerðir NATO, öryggi á Norðurlöndum og norðurslóðum, og samvinnu um úthafsmál,“ segir í samantektinni.

Work lýsti ánægju með forystu Íslands um samvinnu í málefnum norðurslóða, þar á meðal varðandi björgunaraðgerðir á svæðinu. Þá segir í fréttinni að báðir leiðtogar hafi lýst yfir vilja til að leita leiða til að auka samvinnu ríkjanna á sviði öryggismála.

Frétt varnarmálaráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert