Conor McGregor fær nýjan andstæðing

Írski bardagakappinn Conor Mcgregor í Mjölni. Hann mun fá nýjan …
Írski bardagakappinn Conor Mcgregor í Mjölni. Hann mun fá nýjan andstæðing í titilbardaga sem fer fram eftir 10 daga. mbl.is/Styrmir Kári

Írski bardagakappinn Conor McGregor hefur fengið nýjan keppinaut á næsta bardagakvöldi UFC, en það hefur númerið 189. McGregor átti áður að berjast við José Aldo, titilhafa í fjaðurvigt UFC sambandsins, en í síðustu viku var tilkynnt um meiðsli hjá Aldo og hefur nú verið staðfest að hann muni ekki keppa í þetta skiptið. Nýr andstæðingur McGregor er Bandaríkjamaðurinn Chad Mendes og mun sigurvegari bardagans vinna til bráðabirgðabeltis (e. interim belt).

Nokkur aðdragandi hefur verið að þessari ákvörðun, en á mánudaginn í síðustu viku var tilkynnt um að Aldo hefði slasast á rifbeini á æfingu. Óljóst var hvort einhver myndi taka sæti hans, en Aldo gaf út að hann vildi berjast. Nokkrum dögum síðar sögðu læknar að meiðslin væru ekki of alvarleg og að hann gæti barist þann 11. júlí þegar bardagakvöldið fer fram. 

Í gær varð aftur á móti ljóst að Aldo myndi draga sig úr bardaganum, en hann treysti sér ekki til að æfa vegna meiðslanna. Í kjölfarið héldu forsvarsmenn UFC fréttamannafund með McGregor þar sem tilkynnt var um breytinguna og að bardaginn myndi gefa bráðabirgðarbelti. Á fundinum sagði McGregor að ljóst væri að Aldo væri hræddur við sig, enda hefðu læknar talið hann vera í lagi og þess vegna væri engin önnur staða en að keppa um bráðabirgðarbelti í þetta skiptið.

Mendes hefur aðeins tapað tveimur af nítján bardögum sínum í blönduðum bardagaíþróttum, en í bæði skiptin voru það titilbardagar á móti José Aldo.

Bardagi McGregor og Mendes verður aðalbardagi kvöldsins, en þetta sama kvöld verður einnig keppt um beltið í veltivigt, þar sem Robbi Lawler og Rory MacDonald keppa. Þetta er sami þyngdarflokkur og Gunnar Nelson keppir í, en hann og Brandon Thatch munu einnig stíga í hringinn þetta kvöld.

Gunnar Nelson mun einnig keppa þetta kvöld, en andstæðingur hans …
Gunnar Nelson mun einnig keppa þetta kvöld, en andstæðingur hans er Brandon Thatch. mbl.is/Árni Torfason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert