Dæmdir til að greiða 238 milljónir

mbl.is/Kristinn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Sigurjón Þ. Árnason og Yngva Örn Kristinsson til að greiða slitastjórn Landsbanka Íslands um 238 milljónir króna í skaðabætur vegna tjóns sem varð vegna viðskipta bankans með hlutabréf í júlí 2008.

Sigurjón er fyrrverandi bankastjóri Landsbankans og Yngvi er fyrrverandi framkvæmdastjóri verðbréfasviðs bankans.

Steinþóri Gunnarssyni, fyrrverandi forstöðumanni verðbréfasviðs bankans, var einnig stefnt en hann var sýknaður.

Taldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna hlutafjárkaupa

Slitastjórn Landsbanka Íslands höfðaði málið á hendur þremenningunum í október 2012.   Málið snýst um kröfu til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem slitastjórnin taldi sig hafa orðið fyrir vegna kaupa bankans á hlutabréfum í Landsbanka Íslands, Hf. Eimskipafélagi Íslands (Eimskip) og Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf. (Straumur) á tímabilinu frá 7. nóvember 2007 til og með 25. júlí 2008 inn á reikning í bankanum sem nefndur var miðlunarbók hlutabréfa II. Nánar tiltekið er krafist bóta vegna fimm tilgreindra viðskipta. Heildarstaða þessara viðskipta á miðlunarbók hlutabréfa II nam alls 1.208.244.352 krónur þann 7. október 2008, þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir starfsemi Landsbanka Íslands samkvæmt framansögðu.

Kröfur slitastjórnarinnar voru reistar á því að Yngvi Örn, Steinþór og Sigurjón hefðu með saknæmum og ólögmætum hætti valdið slitastjórn bankans tjóni vegna kaupa á hlutabréfum í miðlunarbók II.

Í dómi héraðsdóms segir, að það fyrirkomulag hafi ríkt innan bankans varðandi umdeild viðskipti að bankinn hafði heimild til að kaupa eigin hluti fyrir reikning viðskiptamanns að tilteknu marki og innan tiltekins tíma og að öðru leyti innan ramma laganna. Bar samkvæmt áhættureglunum að gera samninga um þetta við viðkomandi viðskiptamann og í framkvæmd voru munnleg samtöl látin nægja. Það verði að líta svo á að um kaup bankans á eigin hlutum hafi verið að ræða þar til viðkomandi viðskiptamaður leysti hlutina til sín. Fyrir liggur að bankinn fór yfir fyrrgreind 10% mörk að þessu leyti frá byrjun janúar 2008.

Þá segir að ekki hafi verið sýnt fram á eða gert líklegt að stefndu hafi mátt sjá það fyrir að viðskiptin 7. nóvember og 28. desember 2007 gætu leitt til þess að kaup eigin hluta færu yfir 10% mörkin. „Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að bótaskylda vegna þessara viðskipta hafi geta stofnast á hendur stefndu,“ segir í dómnum.

Bera skaðabótaábyrgð á tjóni sem varð í júlí 2008

Tekið er fram, að þessi sjónarmið eigi þó ekki við varðandi kaup á hlutabréfum í bankanum 25. júlí 2008. Í janúarbyrjun 2008 var heildareign eigin bréfa auk handveða á miðlunarbók hlutabréfa II þegar orðin yfir 10% og fór stöðugt hækkandi eftir það. Bar Sigurjóni Þorvaldi og Yngva Erni, sem báðir höfðu sérstökum skyldum að gegna á umræddum vettvangi, að gæta þess sérstaklega að ekki væri farið yfir þau mörk eða þau hækkuð, enda ljóst að kaup á eigin hlutum fyrir umtalsverðar fjárhæðir geta verið til þess fallin að skapa sérstaka áhættu, að því er segir í dómnum.

„Umrædd viðskipti með eigin bréf voru ekki heimil samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. Hafa verður þó í huga að hafi hlutafélag eignast hluti andstætt ákvæðum 55.-58. gr. hlutafélagalaga skal það láta þá af hendi svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en sex mánuðum eftir að það eignaðist þá, sbr. nánar 60. gr. sömu laga. Bréfin voru ekki seld þannig að 10% viðmiðunarmörkum væri náð og við hrun bankans urðu þau verðlaus. Af þessum sökum bera stefndu Sigurjón Þorvaldur og Yngvi Örn skaðabótaábyrgð á því tjóni sem varð vegna viðskipta bankans með hlutabréf þann 25. júlí 2008 og ber að telja að tjón stefnanda hafi numið fyrrgreindri fjárhæð viðskiptanna, þ.e. 237.678.000 kr. Ekki verður talið að ákvæði 23. gr. skaðabótalaga sem mæla fyrir um bótaábyrgð starfsmanns gagnvart vinnuveitanda eigi við um stefndu Sigurjón Þorvald og Yngva Örn,“ segir dómstóllinn.

Að því er varðar Steinþór ber þess að geta að hann sat ekki í framkvæmdastjórn bankans og ber hann því ekki skyldur gagnvart félaginu sem af því leiða. Þykir ekki nægjanlega hafa verið sýnt fram á í hverju sök hans var fólgin þannig að hann beri skaðabótaábyrgð vegna umræddra viðskipta þann 25. júlí 2008.

Sigurjón Þ. Árnason.
Sigurjón Þ. Árnason. mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert