Dansinn snýst um dansfélagann

Óttar Proppé á Alþingi. Mynd úr safni.
Óttar Proppé á Alþingi. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

„Á dögunum minntist ég á það í ræðu að ég hefði upplifað sumarkomuna í birkiskógi við Breiðafjörð,“ sagði Óttar Proppé í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðunum. „Þar heyrðist ekki mannsins mál fyrir fuglasöng og þótt ég skilji ekki fuglamál þá upplifði ég gleði í fuglasöngnum sem hafði góð áhrif á mig.“

„Fuglarnir settu mér tóninn án þess að vera meðvitaðir um það. Það fékk mig til þess að hugsa um alþingi. Hér situr alls konar fólk og ræðir mikilvæg mál. Alþingi er málstofa og þessi málstofa er mjög áberandi. Henni er sjónvarpað, og helstu fjölmiðlar fylgjast vel með. Þannig senda umræður á þingi tón út í samfélagið. Það er ekki bara hvað við erum að ræða sem skiptir máli heldur líka hvernig við gerum það.“

Hann sagði að þingmennska væri þjónustustarf. Þinginu ber að vinna að almannahagsmunum, ekki bara kjósendum sínum eða kjördæmi. 

Hann rifjaði upp vinnuferð til Lundúna. Þar settist við hliðina á honum og kollega hans gamall maður.

„Hann var klæddur í herbúning, alsettur medalíum og með uppsnúið yfirvaraskegg. Reffilegur kall og alveg hundgamall. Við tókum tal saman og upp úr kafinu kom að kallinn, sem var 96 ára gamall, hafði barist í skotgröfunum á vestur vígstöðvunum í fyrri heimsstyrjöldinni og var á leiðinni í þinghúsið að taka þátt í minningarathöfn. Hann sagði okkur að þetta hefði vissulega verið ömurleg reynsla en hann hefði verið heppinn með liðsforingja sem hafði staðið fyrir dansæfingum á frívöktum. Ég sé þá ennþá fyrir mér einkennisklædda karla með skrautleg yfirvaraskegg að dansa í neðanjarðarbyrgjum meðan sprengjurnar flugu yfir.“

Hann sagði að aðalatriðið við dans væri að athyglin væri alltaf á dansfélaganum. Að dansinn yrði aldrei góður nema dansfélaginn fengi að skína. Velheppnaður dans væri samvinnuverkefni og þessi lærdómur hefði nýst honum betur en nokkuð annað á langri æfi.

„Mér finnst þessi lexía eiga við hér á Alþingi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert