„Þess sem var að vænta“

mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta hefur átt sér töluverðan aðdraganda allt frá því að skýrsla innanríkisráðuneytisins kom fram og síðan spratt frumvarpið upp úr því. Þetta er þess sem vænta mátti og hefur verið rætt um frá því í desember,“ segir Ólafur Þór Hauksson saksóknari embættis sérstaks saksóknara. Embættið verður formlega lagt niður um áramótin og verkefnin munu þá færast yfir í nýtt embætti héraðssaksóknara samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti í gær.

Frá áramótum mun því ákæruvaldið starfa á tveimur stigum. Ríkissaksóknari verður æðsti handhafi ákæruvalds en héraðssaksóknari verður saksóknar- og lögregluembætti á lægra stigi.

Verkefni sérstaks saksóknara fara inn á borð héraðssaksóknara auk verkefni frá peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra en þau verkefni eru nú þegar farin að færast inn í embætti sérstaks saksóknara. 

Ólafur segir embættið nú vinna að því að verkefni embættisins séu sem best stödd þegar hið nýja embætti tekur við málunum. „Það er okkar hlutverk að vinna hörðum höndum að því að ljúka sem flestum málum og sjá til þess að yfirfærslan gangi snurðulaust.“

50 mál inn á borð sérstaks saksóknara á þessu ári

Hann bendir á að ekkert hafi verið ákveðið enn með starfsmannahald í hinu nýja embætti eða hvernig það verði skipað. Það er því ekki vitað hvar starfsmenn sérstaks saksóknara munu enda.

Að sögn Ólafs eru um 60-70 mál nú í gangi hjá sérstökum saksóknara, þar af um 20 sem tengjast hruninu. „Þau mál eru flest langt á veg komin. Það er svolítið að koma inn til okkar núna af þessum hefðbundnu málum, við þurfum líka að vinna að því að klára sem flest af þeim fyrir samrunann,“ segir Ólafur.

Á árunum fyrir hrun komu að meðaltali um 60-70 efnahagsbrot inn á borð saksóknaraembættisins á ári. Þegar árið 2015 er nú hálfnað hafa 50 mál komin inn á borð sérstaks saksóknara. „Þetta kemur svolítið í gusum, en það er ennþá ákveðin bólga miðað við venjulegt árferði,“ segir Ólafur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert