Frjókornin herja á landsmenn

Mikilvægt er að slá grasið áður en það nær að …
Mikilvægt er að slá grasið áður en það nær að blómgast. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Miklu máli skiptir fyrir þá sem eru með ofnæmi fyrir frjókornum í grasi að það sé slegið áður en það nær að blómgast. Gott er að hafa svefnherbergisglugga lokaða ef grasið fyrir utan húsið er óslegið.

Þetta segir Ellý Renée Guðjonhsen, líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Grasið er nú farið að taka við sér og frjókornin farin að angra þá sem eru með ofnæmi. 

„Grasið er að byrja en birkið hefur líklega náð hámarki og er nú á niðurleið,“ segir Ellý í samtali við mbl.is. Aðalfrjótími grass er í júlí eða ágúst en það fer eftir veðri hverju sinni. Birkið var um tveimur vikum einna á ferðinni í ár en í meðalár og náði það því hámarki seinna en ella.

Dreifast vel í hlýju, þurru veðri og golu

Ellý segir að fólk sem er með ofnæmi fyrir frjókornum í grasi muni finna fyrir ofnæmi á næstu vikum, sérstaklega þar sem grasið er óslegið.

Frjókornin dreifast vel í hlýju, þurru veðri og golu. „Fyrir þá sem eru með grasofnæmi skiptir miklu máli að grasið sé slegið áður en það blómgast. Þá koma engin frjókorn, ef grasið nær ekki að blómgast,“ segir Ellý.

Mikilvægt er að fólk með ofnæmi af þessu tagi sé meðvitað, horfi í kringum sig og dvelji ekki mikið nálægt óslegnu grasi. Þá ætti fólk til að mynda ekki að þurrka þvott sinn úti á þvottasnúru þar sem mikið er um óslegið gras.

Ellý bendir einnig á að þeir sem eru með ofnæmi fyrir frjókornum í grasi ættu að hafa svefnherbergisgluggann lokaðan yfir nóttina ef grasið í garðinum fyrir utan er óslegið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert