Hlaupið í nafni friðar

Setning Sri Chinmoy Friðarhlaupsins við Tjörnina í Reykjavík.
Setning Sri Chinmoy Friðarhlaupsins við Tjörnina í Reykjavík. mbl.is/Kristinn

Sri Chinmoy Friðarhlaupið var sett í morgun með opnunarathöfn við Tjörnina í Reykjavík. Hlaupið er alþjóðlegt kyndilboðhlaup og er tilgangur þess að efla frið, vináttu, og skilning manna og menningarheima á milli. Sem tákn um þessa viðleitni bera hlaupararnir logandi kyndil, sem berst manna á milli.

Það var borgarstjóri sem setti hlaupið ásamt alþjóðlega Friðarhlaupsliðinu, krökkum af leikskólanum Tjarnarborg og stúlkum úr 4.flokki Vals. Hlaupinn var táknrænn hringur og Friðarkyndillinn látinn ganga manna á milli, þar á meðal fulltrúum allra sex heimsálfanna. Athöfnin fór fram nálægt styttunni af Tómasi Guðmundssyni en þar er friðartré Reykjavíkurborgar sem borgarstjóri gróðursetti árið 2013.

Hlaupið fer fram dagana 1.-24. júlí og þá mun tólf manna alþjóðlegur hópur hlaupara hlaupa um allt Ísland með logandi Friðarkyndilinn. Öllum gefst færi á að taka þátt en sérstök áhersla er lögð á þátttöku barna og ungmenna.

Kveikt á kyndlinum í Langjökli

Markmið hlaupsins er að auka meðvitund um að friður, vinátta og skilningur hefst í hjarta hvers og eins. Friðarhlaupið safnar ekki fé og leitar ekki eftir stuðningi við pólitískan málstað.

Kveikt var á Friðarkyndlinum í ísgöngunum í Langjökli og var sá staður valinn því skipuleggjendur telja hann endurspegla frið og sérstæðu Íslands og er í samræmi við þau orð Sri Chinmoy að Ísland er frumkvöðull í friðarmálum, bæði hvað varðar friðinn í hjarta þjóðarinnar og í náttúrunni.

Friðarhlaupið er skipulagt af sjálfboðaliðum, en talsmaður Friðarhlaupsins er Carl Lewis, nífaldur ólympíugullverðlaunahafi.  Meðal annarra sem stutt hafa hlaupið má nefna Nelson Mandela, Mikhail Gorbachev, Móður Teresu og Desmond Tutu.

Ísland hefur tekið þátt frá upphafi árið 1987. Meðal íslenskra stuðningsmanna hlaupsins má nefna Vigdísi Finnbogadóttur, Halldór Blöndal fyrrverandi ráðherra og forseta Alþingis, Stefán Karl Stefánsson skemmtikraftur og mannvinur og Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert