Langt í að allir fjallvegir opni

Vegurinn um Kjöl opnaði loksins í dag.
Vegurinn um Kjöl opnaði loksins í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki er búið að opna alla hálendisvegi þrátt fyrir að í dag sé fyrsti dagur júlímánaðar og hið íslenska sumar nái fljótlega hámarki. „Vegirnir opnast ekki allir strax, það er heillangt í það,“ sagði G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is.

Á heimasíðu Vegagerðarinnar er yfirlit yfir fjallvegi landsins og færi menn sig yfir á kort sem sýnir færð sést að fjölmargir fjallvegir eru enn ófærir. Segir á heimasíðu Vegagerðarinnar að opnun fjallvega fari eftir veðurfari að vori eða í sumarbyrjun og ráða þar snjóalög mestu um opnunartíma. Bleyta í vegum geti einnig valdið því að vegir opnist seint. Til gamans má geta að vegurinn um Kjöl opnaði loksins að fullu í dag.

Starfsemi ferðaþjónustunnar er komin í fullan gang í Kerlingafjöllum en nokkuð er síðan fært varð þangað að sögn Páls Gíslasonar staðarhaldara. Hann tók sjálfur til hendinni og mokaði úr sköflum og flýtti fyrir opnun. 

„Það er ómögulegt að segja nákvæmlega til um þetta. Við þurfum að fara eftir veðri og ýmsu öðru til að sjá hvernig gengur að opna vegina,“ segir G. Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert