Markmið Íslands enn ekki ljóst

Fyrir utan stóriðju kemur stærsti hluti losunar Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum …
Fyrir utan stóriðju kemur stærsti hluti losunar Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum frá samgöngum. Enn á eftir að semja um hversu mikið Íslendingar munu draga úr losun sinni fyrir 2030. mbl.is/Ómar

Íslensk stjórnvöld tilkynntu skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í gær að þau muni sameinast um markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir 2030 með Noregi og löndum ESB. Ekki liggur þó fyrir hversu mikið Ísland mun draga úr losun en það mun verða meira en núverandi markmið.

Loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna fer fram í París í desember en þar er ætlunin að ná alþjóðlegu samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til þess að forða verstu afleiðingum loftslagsbreytinga. Hafa aðildarríki loftslagssamningsins eitt af öðru skilað landsmarkmiðum sínum undanfarin misseri. Umhverfisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í gær um að Íslendingar muni fylgja Norðmönnum og löndum Evrópusambandsins um losunarmarkmið.

Hugi Ólafsson, formaður samninganefndar Íslands í loftslagsmálum, segir að ríkin eigi enn eftir að semja um innri skiptingu samdráttar losunar og hann geri ekki ráð fyrir að því verði lokið fyrir fundinn í París í desember.

Sameiginlega markmiðið er 40% samdráttur losunar miðað við árið 1990 fyrir 2030. Íslendingar vinni þegar að sameiginlegu markmiði af þessum toga innan Kyoto-bókunarinnar en samkvæmt því þurfum við að draga úr losun um 20% fyrir 2020. Hugi segir að slá megi föstu að skuldbindingar Íslendinga verði strangari fyrir 2030 en 2020.

„Auðvitað höfum við grófa hugmynd um hvað það gæti verið en það er ekki frágengið. Það verður klárlega strangara og meiri minnkun á losun til 2030 heldur en til 2020,“ segir Hugi.

Uppfæra aðgerðaáætlun sína fyrir 2020

Sameiginlega markmiðið er tvískipt. Annars vegar er sameiginlegt evrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir sem fyrirtæki og iðnaður starfar undir en hins vegar hefur hvert og eitt ríki eigin landsmarkmið sem það þarf að uppfylla.

Ekki liggur fyrir hvernig Ísland mun ná markmiðum sínum um samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda. Hugi segir að núverandi aðgerðaáætlun verði uppfærð og það verði gert áður en núverandi tímabil rennur út. Stjórnvöld hafi meðal annars beðið Hagfræðistofnun um að skoða hvað Íslendingar geti gert aukalega. Sú vinna sé í gangi.

Tilkynning umhverfisráðuneytisins um sameiginleg losunarmarkmið með ESB og Noregi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert