Hjúkrunarfræðinemar segja upp störfum eftir útskrift

Hjúkrunarfræðingar að störfum á LSH.
Hjúkrunarfræðingar að störfum á LSH. mbl.is/Golli

Yfir 250 hjúkrunarnemar á 1., 2. og 3. ári frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri hafa ákveðið að ráða sig ekki í störf hjúkrunarfræðinga að lokinni útskrift nema betri samningar náist.  Þetta kemur fram í  yfirlýsingu frá íslenskum hjúkrunarnemum sem send var til fjölmiðla og heilbrigðisráðherra.

Í yfirlýsingunni lýsa hjúkrunarfræðinemar yfir miklum áhyggjum af kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga og hvaða afleiðingar hún mun hafa í för með sér. „Nú þegar er mikill skortur á hjúkrunarfræðingum og mun sá skortur óhjákvæmilega verða enn meiri nema gripið verði til róttækra aðgerða. Dragi hjúkrunarfræðingar ekki uppsagnir sínar til baka, fari þeir hjúkrunarfræðingar sem geta á eftirlaun og ráði nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar sig ekki til starfa að lokinni útskrift gæti farið svo að allt að helmingur stéttarinnar verði óstarfandi eftir nokkur ár,“ segir í yfirlýsingunni.

Jafnframt er lýst yfir þungum áhyggjum yfir því hvaða afleiðingar uppsagnir hjúkrunarfræðinga munu hafa á klínískt nám hjúkrunarfræðinema, en margir hjúkrunarfræðingar sem hafa sagt upp störfum starfa einnig sem klínískir kennarar. 

„Ástæða þess að við ætlum ekki að segja upp störfum fyrr en eftir útskrift er sú að við álítum of dýrkeypt að fórna reynslunni sem nemar öðlast á námstíma sínum inni á stofnunum undir handleiðslu kennara,“ segir í yfirlýsingunni en hjúkrunarfræðinemar mega byrja að taka hjúkrunarfræði vaktir eftir haustönn á þriðja ári. Einnig fá þeir ekki hjúkrunarleyfi frá landlækni að lokinni útskrift nema að hafa unnið sem hjúkrunarfræðingar í 350 vinnustundir, sem jafngildir um 80% starfi í 3 mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert