Stærsta N1 mótið frá upphafi

Stjörnur framtíðarinnar leika listir sínar á N1 mótinu á Akureyri …
Stjörnur framtíðarinnar leika listir sínar á N1 mótinu á Akureyri um helgina. mbl.is/Skapti

„Þetta er stærsta N1 mótið frá upphafi en 1800 strákar taka þátt. Í fyrra voru þeir rúmlega 1300 þannig að aukningin er töluverð. Það er mikil gróska í fótboltanum og fólk er að sjá þetta á öllum yngri flokka mótum sumarsins,“ segir Þyrí Dröfn Konráðsdóttir, markaðsstjóri N1, í samtali við mbl.is.

N1 mótið í knattspyrnu hófst á Akureyri í dag og stendur til 4. júlí. Búist er við um 1.800 keppendum og 180 liðum til þátttöku. Auk keppenda af öllu landinu koma þrjú erlend lið til þátttöku á mótinu, eitt frá Svíþjóð og tvö frá Færeyjum. N1 er styrktaraðili mótsins en framkvæmdin er í höndum KA. Mótið er langfjölmennasta N1 mótið sem haldið hefur verið. Fjölskyldur og þjálfarar fylgja keppendum til þátttöku og því er búist við þúsundum gesta til Akureyrar í tengslum við mótið.

„Við verðum með beina útsendingu á sport tv sem er mjög spennandi. Ömmur og afar og aðrir ættingjar sem geta kannski ekki komist á mótið geta þá fylgst með strákunum sínum í sjónvarpinu. Einnig myndum við mótið úr lofti með dróna. Með þessu viljum við gera strákunum hátt undir höfði og það er gaman að láta þeim líða eins og stjörnum um helgina.“

Þyrí segir mótið afskaplega skemmtilegt. „Ég hef farið nokkrum sinnum og þarna sér maður stjörnur framtíðarinnar verða til.“ Á laugardeginum fara úrslit fram en það fá ekki allir þátttökumedalíu eins og virðist vera í tísku um þessar mundir. „Þetta er bikarmót og keppt verður til úrslita á laugardag. Þar kemur allur tilfinningaskalinn fram, tár og bros, sem er skemmtilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert