Stefna Sjálfstæðisflokksins að lyfta öllum frá botninum

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Golli

Bjarni Benediktsson sagði á eldhúsdagsumræðum í kvöld að mikilvægt væri að mál lifi milli þinga á sama kjörtímabili, og að vinna þurfi að ákveðnum stjórnarskrárbreytingum í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Bjarni talaði einnig um að allir þingmenn hefðu skyldu til að greiða götur þingmála, og að þörf væri á að afmarka betur ræðutíma þingmanna, og að þingforseti hefði undirstikað mikilvægi nefndarstarfa. Honum var virðing Alþingis hugleikin, þar sem hann sagði hvern þann sem stendur í ræðustóli bera ábyrgð á því að viðhalda virðingu Alþingis.

Hann hvatti þingflokkana til að taka til umræðu sín í milli hvernig ætti að mæta kröfu almennings um að þingið starfaði betur. Hann sagði að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins myndi gera það af heilum hug.

Hann benti einnig á að kaupmáttur hefði á kjörtímabilinu aukist, skattar hefðu lækkað og að skuldalækkanir hefðu komið til framkvæmda. Hann sagði skuldir íslenskra heimila lægri en breskra heimila og nánast á pari við Noreg.

Bjarni ræddi einnig vinnudeilur, sem hefðu sett lit á þjóðfélagið allt. Ekki væri hægt að mæta öllum kröfum, þó svo hann segði það virðast vera þær lausnir sem stjórnarandstaðan hefði kallað eftir. Þá sagði hann jafnaðarmenn hafa talað sig í hring. Jöfnuður væri hvað mestur á Íslandi, en þar þyrfti að gera enn betur. Þá taki þeir einnig undir kröfur háskólamenntaðra um að fá nám metin til launa, hærri launa en annarra.

Hann sagði stefnu Sjálfstæðisflokksins alltaf hafa verið að lyfta öllum frá botninum. „Það er leiðin til árangurs og framfara,“ sagði Bjarni.

Hann sagði áætlun um afnám hafta fengið góðar viðtökur, í þinginu, í þjóðfélaginu og um allan heim. „Það birtir yfir. Betra lánshæfismat hefur verulega þýðingu fyrir alla Íslendinga,“ segir Bjarni, og vísar til þess að Moody’s hækkaði lánshæfismat ríkissjóðs Íslands í vikunni.

Grunnstoðir atvinnulífsins standa vel og ferðamönnum fjölgar, sagði Bjarni. Staða fiskistofna og þróun markaða væru Íslendingum heillavænleg. Bjarni benti fólki á að horfa út í heim og fylgjast með stöðunni erlendis og sagði sameiginlega kannski ekki vera svo góðan kost.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert