Þrár makríll hafi farið illa ofan í ráðherra

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Styrmir Kári

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi Sigurð Inga Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, fyrir að veitast að öðrum þingmönnum í umræðum um atkvæðagreiðslu um veiðigjöld. Spurði hann hvort ráðherrann hefði fengið þráan makríl í morgunmat sem hefði farið öfugt í hann.

Sigurður Ingi hafði gagnrýnt þingmenn minnihlutans fyrir að leggja fram breytingatillögu um að veita afslátt af veiðigjöldum en þeir hefðu áður gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að gjöldin væru ekki nægilega há.

Við þau orð var Steingrímur ekki sáttur. Sagðist hann hafa verulega skömm á því hversu önugur, ósanngjarn og ómálefnalegur sjávarútvegsráðherra hafi verið í árás sinni að þingmönnum minnihlutans sem stóðu að breytingartillögunni.

„Velti því fyrir mér hvort hæstvirtur sjávarútvegsráðherra hafi haft þráan makríl í morgunmat og hann hafi farið eitthvað illa í hann,“ sagði Steingrímur.

Samþykkt var að vísa breytingartillögum meirihlutans til þriðju umræðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert