Varar við kaupum á notuðum hjálmum

Hættulegt getur reynst að nota ekki réttan búnað.
Hættulegt getur reynst að nota ekki réttan búnað. Árni Sæberg

„Það getur beinlínis verið lífshættulegt að kaupa þennan búnað þar sem það er með öllu óvíst að hann geri nokkuð gagn ef notandinn lendir í slysi,“ segir í tilkynningu frá Her­dísi L. Storga­ard, verk­efna­stjóra barna­slysa­varna þar sem hún varar við kaupum á notuðum reiðhjólahjálmum.

Nokkrar tilkynningar hafi borist til Miðstöðvar Slysavarna barna um að slíkir hjálmar séu í endursölu á mörkuðum um landið. Þá hafi einnig borist fregnir af því að ýmis góðgerðarfélög selji hjálma og oft á tíðum barnabílstóla og sessur fyrir börn í bíla.

„Að halda það að hægt sé að meta það með sjónskoðun einni saman hvort búnaður teljist í lagi eða ekki er glæpsamlegt. Það þarf talsverða þekkingu á öryggisbúnaði og stöðlum, prófunum sem búnaðurinn þarf að fara í gegnum og síðan tjónasögu hans til að geta metið hvort hann er í lagi eða ekki. Þrátt fyrir allt þetta þá er stundum ekki hægt að meta það og því þarf að láta notandann njóta vafans.“

Herdís segir það grafalvarlegt að nokkrum skuli detta til hugar að selja búnað af þessu tagi þar sem ekkert sé vitað um sögu búnaðarins og oft á tíðum sé þekking þeirra sem standi að sölunni af skornum skammti.

„Það má einnig benda á þá staðreynd að stjórnvöld sem fara með þennan málfokk þurfa að hafa betri gætur á því að ekki sé verið að endurselja þennan búnað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert