3.616 bíða skurðaðgerðar á augasteini

Biðlistar eftir augnsteina- og liðskiptaaðgerðum hafa lengst töluvert undanfarið.
Biðlistar eftir augnsteina- og liðskiptaaðgerðum hafa lengst töluvert undanfarið. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

3.616 bíða eftir skurðaðgerð á augasteini hér á landi. Þar af hafa 2.915 beðið lengur en í þrjá mánuði. Langir biðlistar eru einnig eftir gerviliðaaðgerðum á mjöðm og hné en 454 bíða eftir gerviliðaaðgerð á mjöðm og 739 á hné.

Þetta kemur fram á vef Embættis landlæknis en embættið hefur nú uppfært yfirlit yfir stöðu á biðlistum eftir völdum skurðaðgerðum. 

Biðlisti eftir hjarta- og/eða kransæðamyndatöku (kransæðavíkkanir meðtaldar) er að mestu óbreyttur frá því í febrúar. Á vef embættisins kemur fram að það sé áhyggjuefni að um 200 sjúklingar bíði eftir þessum aðgerðum, þar af hafa 102 sjúklingar beðið meira en þrjá mánuði. Eins og greint var frá var Hjartagátt Landspítala var lokuð í um tvær vikur vegna verkfalls hjúkrunarfræðinga í maí og júní, sem hefur haft áhrif á bið eftir myndatöku og kransæðavíkkun.

Jafnframt bíða fjórtán eftir aðgerð á blöðruhálskirtli en það er mikil aukning frá árinu 2008. Þá voru yfirleitt 1 til 2 á biðlista en í júní á síðasta ári fjölgaði nokkuð snögglega í tíu einstaklinga og nú í júní eru þeir 14 talsins.

Sumir biðlistar hafa hins vegar styst eins og eftir ófrjósemisaðgerðum kvenna. Konum sem beðið hafa lengur en þrjá mánuði eftir ófrjósemisaðgerð hefur fækkað nokkuð, en nú eru þær 14 talsins. Þær voru 36 í febrúar og 20 á sama tíma fyrir ári. Áætlaður biðtími hefur að sama skapi dregist saman, bæði á Landspítala og Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi.

Viðmið Embættis landlæknis um hámarksbiðtíma eftir meðferð/skurðaðgerð sem eru 90 dagar eða þrír mánuðir. Af þeim völdu aðgerðum sem eru til skoðunar hjá embættinu hafa rúmlega 4700 aðgerðir beðið framkvæmdar lengur en þrjá mánuði á landinu öllu.

„Eins og kunnugt er settu verkföll heilbrigðisstétta mark sitt á sl. vetur, allt frá októberlokum 2014 fram í janúar 2015 og síðan frá 7. apríl – 15. júní 2015. Samkvæmt þeim upplýsingum sem embættið hefur undir höndum var hundruðum aðgerða frestað vegna verkfallanna. Væntanlega eru ekki öll kurl komin til grafar því þær tölur sem nú liggja fyrir miðast við stöðu á biðlistum þann 1. júní og ná því ekki til alls þess tímabils sem verkfall stóð yfir,“ segir á vef embættisins.

Hægt er að sjá yfirlitið í heild sinni hér. 

Aðsetur landlæknisembættisins er við Barónsstíg.
Aðsetur landlæknisembættisins er við Barónsstíg. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert