„Erfitt að segja hvernig þetta fer“

Hjúkrunarfræðingar eru tvístígandi varðandi nýja kjarasamninga.
Hjúkrunarfræðingar eru tvístígandi varðandi nýja kjarasamninga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kosning um nýjan kjarasamning hjúkrunarfræðinga sem samþykktur var í síðustu viku hefst á laugardaginn. Kosningin er rafræn og stendur til 15. júlí. Síðan að samningurinn var samþykktur hefur stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga kynnt samninginn fyrir félagsmönnum og þegar að blaðamaður mbl.is náði tali af Ólafi G. Skúlasyni, formanni FÍH var hann á leið að kynna samninginn á Sauðárkróki.

Ólafur segist eiga erfitt með að lýsa viðbrögðum félagsmanna við samningnum. „Við kynnum samninginn eins og hann er og hvetjum fólk síðan til að vega og meta sína afstöðu út frá því. Hljóðið er misjafnt í fólki, sumir eru frekar neikvæðir, aðrir eru jákvæðir en flestir eru tvístígandi. Það er erfitt að segja hvernig þetta fer.“

Eins og sagt hefur verið frá hafa fjölmargir starfsmenn Landspítalans sagt upp störfum þar síðustu vikur. Í gær höfðu 285 starfsmenn sjúkrahússins sagt upp störfum, þar af 235 hjúkrunarfræðingar.

Ólafur segir að það sé mikil alvara á bakvið þessar uppsagnir meðal hjúkrunarfræðinga sem hann hefur rætt við. „Ég hef líka séð það á þeim samskiptavefjum þar sem verið er að ræða þessi mál að fólki er alvara. Ég er ansi hræddur um að við séum að fara að missa mjög marga sérhæfða hjúkrunarfræðinga úr starfi, sama hvernig þetta fer.“

Í gær sendu hjúkrunarfræðinemar frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að yfir 250 hjúkrunarfræðinemar hafi ákveðið að ráða sig ekki í störf hjúkrunarfræðinga að lokinni útskrift nema betri samningar náist.

Ólafur segir að þær fregnir staðfesti það sem haldið hefur verið fram, að hjúkrunarstarfið þurfi að vera samkeppnishæft um mannafla. „Námið er fjölbreytt og nýtanlegt í mörg önnur störf en hjúkrun. Hjúkrunarfræðingar eru eftirsóttir í mjög mörg störf utan hjúkrunar og svo eru hjúkrunarfræðingar líka eftirsóttir erlendis frá. Þannig það eru aðrir möguleikar í boði.“

Ólafur kynnir samninginn fyrir hjúkrunarfræðingum í síðustu viku.
Ólafur kynnir samninginn fyrir hjúkrunarfræðingum í síðustu viku. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert