Fyrsti makríllinn til Vopnafjarðar

Vinnsla hófst í nótt.
Vinnsla hófst í nótt. Ljósmynd/HB Grandi

Fyrsti makrílafli sumarsins kom til Vopnafjarðar í gærkvöldi þegar Faxi RE sigldi í höfn með rúmlega 200 tonn innanborðs. Aflinn fékkst í fjórum holum við suðaustanvert landið, að því er fram kemur í frétt á vef HB Granda.

„Við hófum veiðarnar út af Öræfagrunni og enduðum veiðiferðina út af Stokksnesi. Mestur tíminn fór hins vegar í að sigla um svæðið eða halda sjó vegna þeirrar þrálátu brælutíðar sem verið hefur á miðunum fyrir austan. Faxi var eina skipið á makrílveiðum á þessum slóðum og það er varla hægt að segja að við höfum fengið mynd af ástandinu. Svo mikið vitum við þó að makríll er á svæðinu og trillukarlar hafa orðið varir við vaðandi makríl nær ströndinni,“ er haft eftir Hjalta Einarssyni skipstjóra.

Byrjað var að vinna aflann í uppsjávarfrystihúsinu í nótt og komu um 25 að vinnslunni. Þegar öll skip verða kominn til veiða má gera ráð fyrir að 120-130 manns verði starfandi í vinnslunni.

Hér má lesa fréttina á vef HB Granda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert