Gera athugasemdir við stöðugleikaskatt

InDefence hópurinn á tröppum Bessastaða.
InDefence hópurinn á tröppum Bessastaða.

InDefence-hópurinn hefur sent inn umsögn um lög um stöðugleikaskatt þar sem þrjár athugasemdir eru gerðar. Í fyrsta lagi vill hópurinn að stöðugleikaskilyrðin sem slitabúin verða að uppfylla jafngildi 39% stöðugleikaskatti, í öðru lagi að það sé ekki einungis Seðlabankinn sem framkvæmi stöðugleikamatið og í þriðja lagi að lán slitabúa til innlendra lánastofnana verði til 30 ára með lágum vöxtum.

Í umsögninni kemur fram að þau ófrávíkjanlegu stöðugleikaskilyrði sem á eftir að opinbera séu samkvæmt tilkynningu stjórnvalda sögð jafngild áhrifum stöðugleikaskatts. Ekkert sé þó getið um þetta í fyrirliggjandi frumvörpum. „Það veldur okkur áhyggjum að stöðugleikaskilyrðin virðast mun matskenndari en skatturinn og ekki virðist liggja endanlega fyrir hver áhrif þeirra eru í samanburði við skattinn,“ segir í umsögninni.

Telur hópurinn að ekki hafið komi fram nægilega góðar upplýsingar um tilboð kröfuhafanna og að lesa megi úr þeim að þau séu ekki eins hagfelld íslenskum almenningi og skatturinn.

Mat Seðlabankans ekki alltaf óbrigðult

Í lögunum er gert ráð fyrir að Seðlabankinn framkvæmi stöðugleikamat sem fylgja á með í staðfestingarferli nauðasamninga slitabúsins. Segir í umsögninni að áhrifin af þessari lagasetningu séu í raun takmörkun á dómsvaldinu þar sem innlendir dómstólar munu að öllum líkindum ekki vefengja mat Seðlabankans. „Það er því Seðlabanki Íslands sem í raun ákveður hvort nauðasamningar uppfylli markmið stjórnvalda um að tryggja stöðugleika og þar með almannahag. Þetta þýðir að það er Seðlabanki Íslands, og þar með Seðlabankastjóri, sem í reynd túlkar hin óljósu stöðugleikaskilyrði og úrskurðar hvort þau séu jafngild stöðugleikaskatti,“ segir í umsögninni og hefur hópurinn talsverðar áhyggjur af þessu.

Hópurinn telur að þótt mikið traust sé alla jafna lagt á Seðlabanka Íslands á efnahagsstöðu og horfur sé ekki hægt að gera ráð fyrir að slíkt mat sé alltaf óbrigðult. 

„Í ljósi þess hversu gríðarlegt hagsmunamál losun fjármagnshafta er fyrir þjóðina og þeirra miklu áhrifa sem hver nauðasamningur slitabúa getur haft á greiðslujöfnuð, lífskjör og þrýstings á krónuna, er óásættanlegt að ekki sé kveðið á um frekara eftirlit eða yfirferð óháðs aðila á stöðugleikamati Seðlabanka Íslands. Það er öllum fyrir bestu, líka Seðlabankanum, að slíkt aðhald sé til staðar þegar stöðugleikamat fer fram,“ segir í umsögninni.

Leggur hópurinn til að ákvæði um stöðugleikamatið og forsendur þess skuli birt opinberlega, og að ákvæði um að óháður aðili yfirfari og staðfesti stöðugleikamatið sé jafngilt 39% stöðugleikaskatti. Þá er einnig lagt til að ákvæði um stöðugleikaskatti verði lagt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis með svipuðu fyrirkomulagi og nú er notað í veitingu stórra undanþága frá fjármagnshöftum og að slíkur fundur nefndarinnar verði opinn.

Erfiðleikar varðandi endurfjármögnun ógnar stöðugleika

Samtökin telja að skattaafslátturinn í frumvarpinu um stöðugleikaskatt og tillögur stærstu kröfuhafa slitabúanna geri ráð fyrir að það fjármagn sem ekki er afskrifað verði bundið að mestu í 7-10 ár hérlendis, aðallega í innlendum fjármálafyrirtækjum á markaðsvöxtum.

„Sagan og framtíðarhorfur sýna þó að slíkur hugsunarháttur er varhugaverður,“ segir í umsögn samtakanna áður en bætt er við: „Íslenskir bankar hafa ekki haft markaðsaðgang á sjálfbærum kjörum í heilan áratug. Það er helmingi lengri tími en áætluð endurgreiðsla lánsins samkvæmt tillögum kröfuhafanna. Landsbankabréfið svonefnda var 10 ára lán með fyrstu greiðslu eftir 5 ár og ranglega var gengið út frá því að endurfjármögnun myndi reddast. Þegar endurfjármögnun tókst ekki varð það að ógnun við stöðugleika í íslensku efnahagslífi að mati Seðlabankans, Samtaka atvinnulífsins og fleiri.“

Vilja samtökin því að séð verði til þess að vaxtakjörin verði betri og er bent á tvær leiðir í þeim efnum. 

Annars vega að lán slitabúanna verði með eitthvað hærra álagi en er á aðra norræna banka, t.d. 0,3% og hins vegar að álagið verði fest í til dæmis 1% yfir Libor-vexti. „Fyrri leiðin tryggir samkeppnishæfni innlendra banka betur en sú síðari er einfaldari í framkvæmd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert