Hanarnir verða gerðir útlægir

Hanar geta verið friðarspillar, en þó einkum í þéttbýli.
Hanar geta verið friðarspillar, en þó einkum í þéttbýli. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hringurinn um hanana tvo á Suður-Reykjum, sem valdið hafa nágrönnum í Mosfellsbæ ónæði, er að þrengjast. Bannað verður að halda hana samkvæmt reglum bæjarstjórnar. Svo er að koma upp úr dúrnum að ekki virðist lögbýlisréttur á umræddri lóð. Eigendur hananna hafa því ekki lengur það skjól til að leita í.

„Ég vil bara fá gamla góða friðinn aftur. Mér er sama hvort hávaðinn kemur frá hönum eða ljósamótor, maður vill hann ekki,“ segir Vígmundur Pálmarsson, íbúi við Reykjarhvol.

Hann hefur kvartað nokkrum sinnum undan hávaða frá hönunum á Suður-Reykjum sem eru rétt handan Varmár. Hann tekur fram að ástandið hafi lagast eftir að hann fór að kvarta. Nú sé hönunum haldið inni á nóttunni og því veki þeir hann ekki klukkan fjögur eða fimm á nóttunni eins og var. Þeir gali hins vegar allan daginn og það sé hvimleitt til lengdar.

Ekki lögbýlisréttur

Vígmundur fékk þau svör frá Mosfellsbæ að ekkert væri hægt að gera í málinu þar sem hanarnir væru á lögbýli. Nú hefði hins vegar komið í ljós að lögbýlisréttur væri ekki á lóðinni. Samkvæmt upplýsingum Aldísar Stefánsdóttur, forstöðumanns þjónustu- og upplýsingamála, telur byggingarfulltrúi bæjarins, eftir nánari skoðun málsins, að lögbýlisréttur fylgi ekki umræddri lóð. Lóðinni hafi verið skipt út úr lögbýli en rétturinn fylgi ekki sjálfkrafa með.

Reglur um hænsnahald í þéttbýli Mosfellsbæjar hafa lengi verið í vinnslu og voru til seinni umræðu í bæjarstjórn í gær. Þær taka gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. Samkvæmt þeim verður heimilt að halda allt að sex hænsni á hverri lóð en óheimilt með öllu að halda hana. Aldís staðfestir það að þegar reglurnar ganga í gildi verði óheimilt að halda hana á umræddu býli, að því gefnu að það teljist ekki lögbýli. Eigendum verði því væntanlega gert að fjarlægja þá.

Hanaslagur
» Nágrannar hananna á Suður-Reykjum hafa lengi kvartað undan hávaða frá þeim.
» Eigendurnir hafa vísað til þess að nauðsynlegt sé að hafa hana til að halda hænsnahópnum saman.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert