Kaldasti júní í Reykjavík frá 2001

Það komu þó góðir dagar inn á milli í júní.
Það komu þó góðir dagar inn á milli í júní. mbl.is/Styrmir Kári

Júnímánuður var kaldur miðað við hitafar það sem af er öldinni en nærri meðallagi sé miðað við tímabilið 1961 til 1990. Í Reykjavík var hann sá kaldasti síðan 2001 og síðan 1993 á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.

Þetta kemur fram í yfirliti á vef Veðurstofu Íslands.

Þar segir ennfremur, að víðast hvar á landinu hafi júní 2011 þó verið kaldari en nú. Að tiltölu var kaldast á hálendinu og inn til landsins á Austurlandi en hlýjast að tiltölu um hluta Vesturlands þar sem var hagstæð tíð síðari hluta mánaðarins. Annars var tíðarfar óhagstætt lengst af og gróður tók seint við sér. Lítið var um illviðri í mánuðinum, segir ennfremur.

Þá kemur fram, að fyrstu sex mánuðir ársins hafi verið venju fremur kaldir um landið suðvestanvert. Meðalhiti í Reykjavík og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum hefur verið undir meðalhita áranna 1961 til 1990, -0,3 stig á fyrrnefnda staðnum en -0,6 stig á þeim síðarnefnda. Öllu hlýrra hefur verið í öðrum landshlutum. Á Akureyri er meðalhiti mánaðanna sex 0,6 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, 0,4 stigum ofan við í Stykkishólmi og 1,4 stigum yfir meðallagi á Teigarhorni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert