Kona féll í sjóinn við Sæbraut

Konan var flutt með sjúkrabíl á slysadeild.
Konan var flutt með sjúkrabíl á slysadeild. mbl.is/Hjörtur

Ung kona féll í sjóinn við Sæbraut á þriðja tímanum í nótt. Sérsveit ríkislögreglustjóra kom konunni til bjargar, og var hún flutt með sjúkrabíl á Landspítalann til aðhlynningar.

Að því er fram kemur í dagbók lögreglu voru lögreglumenn frá sérsveit ríkislögreglustjóra staddir í aðstöðu sinni við Skúlagötu þegar þeir heyrðu hróp í mönnum frá grjótgarði við Sæbraut neðan við Snorrabraut. Er lögreglumennirnir komu á vettvang til að ræða við mennina sem stóðu á grjótgarðinum sáu þeir konuna í sjónum uþb. 50 metra frá landi og var hún hrópandi til þeirra.

Annar lögreglumaðurinn fór þá til að sækja sjógalla í aðstöðu þeirra en hinn varð eftir og sá þegar konan var að örmagnast. Lögreglumaðurinn fór þá í sjóinn og synti til konunar og náði að bjarga henni. Þegar hann nálgaðist  land var hinn lögreglumaðurinn kominn aftur og fór hann einnig strax í sjóinn án sjógalla og aðstoðaði félaga sinn við að koma konunni í land. 

Þegar lögreglumenn komu með konuna að landi var komin aðstoð frá slökkviliði, sjúkrabifreið og fleiri lögreglumönnum. Konan var köld og hrakin og var hún flutt í sjúkrabifreið til aðhlynningar á slysadeild Landspítalans. Mennirnir sem voru á grjótgarðinum voru erlendir ferðamenn sem voru þarna á göngu og sáu konuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert