Önnur lönd taki Ísland til fyrirmyndar

Mendoza bendir á að Ísland sé númer eitt á lista …
Mendoza bendir á að Ísland sé númer eitt á lista yfir þau lönd sem eru með minnst kynjabil.

„Íslendingar átta sig á því að jafnrétti er ekki aðeins „það rétta“ heldur einnig það gáfulegasta fyrir alla,“ skrifar Gabriela Mueller Mendoza í pistli á vef Huffington Post, þar sem hún fer fögrum orðum um stöðu jafnréttis hér á landi og hvetur önnur lönd til að taka Ísland til fyrirmyndar.

Mendoza var hér á landi á dögunum þar sem hún sótti We Inspirally ráðstefnuna. Á ráðstefn­unni var fjallað um kynjam­is­rétti og hvaða leiðir eru fær­ar til að leiðrétta það. Um er að ræða alþjóðlega ráðstefnu þar sem boðið var upp á fjölda fyr­ir­lestra frá sér­fræðing­um víðs veg­ar að úr heim­in­um. Meðal þeirra sem héldu erindi voru Pat Mitchell, Geena Dav­is og Jóhanna Sigurðardóttir.

Um 400 manns frá 15 löndum tóku þátt í ráðstefnunni, sem Mendoza segir hafa fyllt sig innblæstri. Segir hún heilann á bak við ráðstefnuna hafa verið Höllu Tómasdóttur, annan stofnenda Auðar Capital. „Hún er magnaður sérfræðingur í skipulags- og þróunarmálum og byggir brýr á milli manna til að ná ótrúlegum árangri,“ skrifar Mendoza.

Mendoza segir Höllu og hennar teymi hafa leitt ráðstefnugesti saman til að stuðla að breytingu í heiminum og umræðu um það hvernig hægt er að loka kynjabilinu. „Ísland hefur sett tóninn á marga vegu hvað varðar jafnrétti kynjanna. Landið hefur sett markið mjög hátt og hærra en nokkurt annað land hvað varðar jafnrétti, en það er númer eitt á lista yfir þau lönd sem eru með minnst kynjabil.“

Mendoza listar upp átta atriðum sem Íslendingar gera vel að hennar mati og önnur lönd geta tekið til fyrirmyndar, en þar á meðal segir hún að Íslendingar vinni að jöfnum áhrifum kvenna og karla í ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu. Þá sé leitast við kynjasamþættingu á öllum stigum samfélagsins og unnið að því að minnka launamun kynjanna og annars konar kynjabundna mismunun.

Þá sé körlum og konum gert jafn kleift að vera á vinnumarkaðnum og samræma vinnu- og fjölskyldulífið. Einnig sé fjárfest í aukinni menntun og vitundarvakningu um jafnréttismál frá barnæsku. Auk þess sé fjárfest í kynjafræði og rannsóknum, og unnið gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni. „Íslendingar vinna að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla.“

Mendoza segir Íslendinga viðurkenna framfarirnar en séu einnig meðvitaðir um að enn sé verk að vinna. „Væri ekki frábært að innleiða sumar af þessum leiðum í öðrum löndum í von um að ná sambærilegum árangri þar? Ég tel það vissulega þess virði að reyna.“

Pistilinn í heild má finna hér.

Geena Davis flutti erindi á ráðstefnunni.
Geena Davis flutti erindi á ráðstefnunni. mbl.is/Þórður Arnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert