Efli fjarheilbrigðisþjónustu

Þingkonan Björt Ólafsdótir í augnskoðun.
Þingkonan Björt Ólafsdótir í augnskoðun. Af vef Bjartrar framtíðar

Tillaga Bjartrar framtíðar um að efla svonefnda fjarheilbrigðisþjónustu var samþykkt á Alþingi í dag. Fjarheilbrigðisþjónusta er ýmis þjónusta sem veitt er með fjarskiptum og rafrænum hætti en þingmenn Bjartrar framtíðar segja hana draga úr kostnaði við ferðir bæði notenda og heilbrigðisstarfsfólks.

Fjarheilbrigðisþjónusta hefur rutt sér til rúms víða um heim undanfarna áratugi með góðum árangri, að því er kemur fram í frétt á vef Bjartrar framtíðar um samþykkt þingsályktunartillögunnar. Ætla megi að ávinningur af öflugri fjarheilbrigðisþjónustu hér á landi verði umtalsverður. Með henni sé unnt að mæta betur þörfum fólks auk þess sem hún bætir aðgengi landsmanna að öruggri heilbrigðisþjónustu.

Þá bregðist fjarheilbrigðisþjónusta við manneklu, sérstaklega á stöðum þar sem starfsmannaskipti eru tíð. Þjónustuformið auki hagkvæmni í rekstri og eflir skilvirkni í nýtingu starfsfólks. Fjarheilbrigðisþjónusta dragi úr kostnaði vegna ferða notenda sem og heilbrigðisstarfsfólks. Þá styrki hún nákvæma skráningu heilbrigðisupplýsinga. Fjarheilbrigðisþjónusta er þannig sögð mjög ákjósanlegur kostur til að efla heilbrigðisþjónustu hér á landi og vera árangursrík leið til að efla lýðheilsu.

Dæmi um einfalda útgáfu fjarheilbrigðisþjónustu er ráðgjöf heilbrigðisstarfsmanna í gegnum síma og dæmi um flókna fjarheilbrigðisþjónustu er skurðaðgerð með hjálp vélmenna sem stýrt er af sérfræðingum sem staddir eru hver í sínum heimshlutanum.

Frétt af vef Bjartrar framtíðar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert