Mál sem hefur lifað lengi með þjóðinni

Blaðamannafundur innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið Starfshópur sem …
Blaðamannafundur innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið Starfshópur sem fór yfir rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmáli. Mynd úr safni. Rósa Braga

„Við fengum þetta í hendurnar í dag og niðurstaðan er augljóslega sú að settur ríkissaksóknari mælir með því að þessi tvö mál verði endurupptekin,“ segir Lúðvík Bergvinsson, en hann er lögmaður Tryggva Rúnars Leifssonar og afkomenda Sævars Ciesielski í tengslum við endurupptöku mála þeirra í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Mál Alberts Klahns Skaftasonar verður einnig tekið upp aftur.

Áður hafði verið mælt með að mál Guðjóns Skarphéðinssonar yrði tekið upp aftur.

„Það er mjög ánægjulegt og mikilvægt að hægt verði að taka þessi mál upp að nýju. Tilraunir hafa verið gerðar til þess, en ný gögn og sjónarmið hafa verið lögð fram og á það er fallist af hálfu setts ríkissaksóknara. Bæði dómfelldi og saksóknari leggja til endurupptöku. Það er þá endurupptökunefndar að ákveða hvað á að gera,“ segir Lúðvík, en vill ekki spá fyrir um líklega niðurstöðu hennar.

Gögn sem þurfi að fara yfir segir hann hins vegar gríðarleg að umfangi, en að endurupptökunefnd hafi gert lögmönnum eins kleift og kostur er að nálgast þau og leggja málið fyrir nefndina, meðal annars með því að opna sérstakt gagnaherbergi.

„Þetta er auðvitað mál sem hefur lengi lifað með þjóðinni og lengi verið uppi efasemdir um að dómar hafi verið réttir, nógu miklar efasemdir til að settur saksóknari fellst á endurupptökubeiðni,“ segir Lúðvík. „Þetta er risastór áfangi og merkilegt þegar bæði dómfelldi og saksóknari telja tilefni til endurupptöku.“

Lúðvík Bergvinsson
Lúðvík Bergvinsson Bona Fide lögmenn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert