20 stiga hiti víða í dag

Sól í Nauthólsvík.
Sól í Nauthólsvík. mbl.is/Golli

Í dag má bú­ast við því að hit­inn á land­inu fari í 20°C. Á höfuðborg­ar­svæðinu er spáð 12-17 stiga hita næsta sól­ar­hring­inn. Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands er von á góðu veðri um allt land um helgina og mun létta til þegar líður á daginn.

Í dag verður aust­an- og norðaustanátt, 3-8 m/​s, en 8-13 m/​s með suðaust­ur­strönd­inni. Víða bjart veður og hiti 15 til 20 stig, en svalara við norður- og austurströndina.

Á morgun, sunnudag, má gera ráð fyrir austan- og norðaustanátt 5-13 m/s. Þá er útlit fyrir að á suður og suðausturlandinu verði skýjað með lítilsháttar rigningu og skúrum. Þá verður hiti á bilinu 8 til 18 stig víðast hvar, hlýjast fyrir norðan og vestan.

Sjá nán­ar á veður­vef mbl.is.

Enginn lægðagangur í kortunum

Að sögn veðurfræðings gætu orðið síðdegisskúrir í flestum landshlutum á morgun, en hlýjast verður í dölum þar sem er skjól. Þá má ekki sjá að veður verði afgerandi betra í einum landshluta en öðrum.

Eftir helgi má svo gera ráð fyrir að kólni aðeins í lofti, en áfram verður hæglætisveður. „Það verður mjög stabíl norðaustanátt og ekki mikil úrkoma. Það er enginn lægðagangur í kortunum en smávegis súld eða þoka og síðdegisskúrir á suður- og austurlandi.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:
Norðaustan og austan 3-8 m/s, en 8-13 NV-til og með SA-ströndinni. Skýjað og að mestu þurrt fyrir norðan og austan. Bjart með köflum á SV- og V-landi og líkur á síðdegisskúrum. Hiti frá 7 stigum á annesjum NA-lands, upp í 18 stig á SV-verðu landinu.

Á þriðjudag:
Norðaustanátt 3-10 m/s og bjart með köflum, en skýjað og dálítil rigning með ströndinni á NA- og A-landi. Hiti 7 til 17 stig, hlýjast SV-til.

Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag:
Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og stöku skúrir, einkum SV-til. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast V-til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert