Erfið ákvörðun en hjartað réð

Lára Sóley Jóhannsdóttir
Lára Sóley Jóhannsdóttir mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lára Sóley Jóhannsdóttir stóð á tímamótum um síðustu áramót; hætti í föstum störfum og stökk út í óöryggið. Nýverið gaf hún út angurværa plötu með vögguljóðum sem sungin voru fyrir hana á sínum tíma og uppáhaldslögum barna sinna sem hún syngur fyrir þau á kvöldin. 

Lára Sóley ólst upp á Húsavík og tónlist hefur fylgt henni nánast alla tíð. „Þar lærði ég í tiltölulega litlum skóla sem ég held að hafi haft mjög mikil áhrif á það hver ég er í dag. Það er ekki langt síðan ég gerði mér grein fyrir því. Við þurftum að vera opin og frjó, fengum mjög mikla hvatningu og urðum oft að búa til okkar eigin verkefni. Ég var í hóp þar sem einn spilaði á píanó, annar á saxófón og svo voru gítar og fiðla; á stærri stað eins og Akureyri er frekar ákveðið fyrir mann hvert leiðin liggur í tónlistinni,“ segir hún við blaðamann.

„Það, hvernig þetta var á Húsavík, stuðlaði að því að maður opnaði hugann fyrir fjölbreytileika í tónlist. Ég var svo ótrúlega heppin að Diddi Hall, Sigurður Hallmarsson, plataði mig snemma til að spila með sér og Ingimundi Jónssyni, valsa og harmóníkutónlist.

Á þessum tíma fór ég að spila mikið eftir eyranu, sem er mjög dýrmæt reynsla þegar maður fer að starfa sem tónlistarmaður.“

Klassík eða popp?

Fyrsti fiðlukennari Láru var Sigríður Einarsdóttir. „Hún var mjög hvetjandi og góður kennari.“

Þegar Eistinn Valmar Väljaots kom til Húsavíkur hóf Lára nám hjá honum. „Allt í einu var ég farin að tala við kennarann á ensku, 12 ára gömul. Valmar var mjög góður kennari líka, kröfuharðari, sem var gott, og ég lærði mjög margt af honum. Síðan var ég svo lánsöm að byrja 14 ára að spila með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og öðlaðist mikla reynslu við það.“

Lára leikur enn með SN.

Hún segir aðspurð að í raun hafi aldrei annað komið til grein en að hún starfaði við tónlist. „Á menntaskólaárunum var ég hugsi yfir því hvort ég vildi frekar verða klassískur tónlistarmaður eða fara meira yfir í popp og svoleiðis en komst svo að því að ég þurfti ekki að velja heldur gat verið í hvoru tveggja!“

Lára Sóley kveðst hafa flýtt sér í gegnum menntaskóla en hún lauk námi frá MA á þremur árum. „Ég fór þaðan til London, var í einkatímum á fiðluna í eitt ár á meðan ég þreifaði fyrir mér með skóla.“

Hún valdi Cardiff umfram London, bæði vegna stærðar borgarinnar og kennarans. „Mér fannst Cardiff passa mér betur; þótt hún sé höfuðborg Wales er nokkur sveitabragur á borginni, komandi frá Húsavík og eftir búsetu á Akureyri fannst mér ég frekar vera heima þar en í London, þar sem búa níu eða tíu milljónir.“

Árin í Cardiff voru „æðisleg,“ segir Lára Sóley en þar var hún við nám í fjögur ár.

Þegar hún var hálfnuð í námi lenti Lára í bílslysi. „Ölvaður ökumaður missti stjórn á bíl og ók á mig þar sem ég var á gangstétt. Ég þurfti að taka mér hvíld frá skólanum, var fyrst úti í endurhæfingu í nokkrar vikur en kom svo heim.“

Fljótlega eftir komuna til Akureyrar fór hún í „smá endurhæfingu“ í Sjallann með vinkonu og hitti þar Hjalta Jónsson frá Blönduósi, sem hún þekkti frá því í menntaskóla.

Þetta sumar starfaði Lára Sóley sem leiðsögumaður í hvalaskoðun heima á Húsavík. „Hjalti var rosalega duglegur að koma í hvalaskoðun fyrstu vikurnar eftir að við hittumst í Sjallanum! Svo fór ég aftur út, hann var heima um veturinn en flutti til mín um vorið og var með mér í Cardiff í rúmt ár.“

Þau hafa verið saman síðan.

Sunnudagsblaðið
Sunnudagsblaðið
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert