Falinn demantur á besta stað

Vagninn er á besta stað í bænum.
Vagninn er á besta stað í bænum. Ljósmynd/Hagavagninn

„Reksturinn hjá okkur gengur vel en ég hef verið með vagninn í þrjú og hálft ár. Ég hef tekið eftir meiri umferð um svæðið hérna síðan Kaffi Vest opnaði hinum megin við götuna fyrir tæpu ári síðan,“ segir Jóhanna Carlsson, eigandi Hagavagnsins, í samtali við mbl.is. Vagninn stendur mitt á milli Vesturbæjarlaug og kaffihússins Kaffi Vest í Vesturbæ Reykjavíkur og fólk getur fengið sér pulsu, hamborgara eða ís, allt eftir því hvernig stemningin er.

Sund og hamborgari

Margir svipaðir vagnar eru staðsettir við hliðina á sundlaugum enda virðist það oft hluti af upplifun sundferðarinnar að fá sér eitthvað gott að borða að henni lokinni. „Það passar. Fólk kemur oft hingað eftir að hafa fengið sér sundsprett.“ Blaðamaður er sammála þessu því ekkert er betra en hamborgari og franskar eftir að hafa svamlað um í heita pottinum.

Jóhanna segir fjölgun fólks megi þó að miklu leyti skýra út af ákveðnum endurbótum sem gerðar voru á svæðinu. „Það voru gerðar breytingar á svæðinu við sundlaugina og hún opnaði eftir þær breytingar í fyrra og þá jókst straumurinn hingað. Með tilkomu kaffihússins hér á móti hefur lífið á svæðinu aukist til mikilla muna. Hérna höfum við vagninn, kaffihús, sundlaug og Melabúðina þannig að fólk á mikið erindi hingað.“

Renndu blint í sjóinn

Hagavagninn hefur staðið á sínu horni í mörg ár en oft hefur hann verið lokaður. „Hér áður fyrr var sami eigandinn í mörg ár.“ Sá maður var heilsulítill og virtist óviss hvað gera ætti við vagninn. „Hann reyndi að setja vagninn í leigu en það gekk ekki upp. Þá ætlaði hann að selja en hætti við það á endanum.“ Það var eitthvert hringl á þessu hjá honum af því hann ætlaði alltaf að koma til baka í reksturinn en gat það ekki sökum veikinda.

Jóhanna keypti vagninn og þau viðskipti voru mikil áhætta. „Þegar við keyptum hafði staðurinn verið lokaður í smá tíma og hafði engar sölutölur á bak við sig eða neitt slíkt. Það var því rennt blint í sjóinn hvað það varðar en þetta hefur lukkast vel.“ Það hafi samt tekið tíma að vinna traust íbúa í hverfinu því fólk hafði sínar efasemdir. „Ég fann alveg að fólk var efins en sem betur fer hefur þetta gengið vel og fólk tekið okkur vel eftir byrjunar efasemdir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert