Fór út til að segja sögur

Hinn dularfulli Eagle hefur komið víða við á löngum ferli.
Hinn dularfulli Eagle hefur komið víða við á löngum ferli. mbl.is/Rax

Egill Örn Egilsson, eða Eagle Egilsson eins og hann kallar sig, hefur starfað sem kvikmyndatökumaður, leikstjóri og framleiðandi í Los Angeles í aldarfjórðung. Undanfarin ár hefur hann mest unnið við sjónvarp, þætti eins og The Wire, CSI-seríurnar og Nikita. Þrátt fyrir gott gengi vestra hefur Egill ekki látið mikið á sér bera og veitir nú í fyrsta skipti blaðaviðtal á Íslandi. Tilefnið er verkefni sem hann er farinn að huga að hér heima en ekki má upplýsa um að svo stöddu. 

 Allmörg ár eru liðin frá því ég rak fyrst augun í dularfullt nafn á skjánum sem vakti forvitni mína. Var að horfa á þá miklu kempu Horatio Caine í CSI: Miami, einskonar Íslendingasagnahetju 21. aldarinnar, og fram kom að maður að nafni Eagle Egilsson hefði kvikmyndatöku með höndum. Þetta hlýtur að vera einhver Vestur-Íslendingur, hugsaði ég með mér. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að Eagle Egilsson er enginn Vestur-Íslendingur, heldur bara venjulegur reykvískur strákur úr Hvassaleitinu.

Nokkru síðar komst ég á slóð Egils Arnar gegnum gamlan vin hans sem þá vann á Morgunblaðinu, Björn Þóri Sigurðsson, Bússa. Egill Örn var þá staddur í stuttu sumarfríi hér heima og ég hringdi í hann og ámálgaði viðtal. Egill Örn tók mér vel en kvaðst vera niðursokkinn, þyrfti að hitta marga á skömmum tíma, auk þess sem hann hefði aldrei farið í viðtal á Íslandi og hefði satt best að segja engan sérstakan áhuga á því. „Ég er frekar prívat maður,“ sagði hann. Eftir að hafa tekið sér stuttan umhugsunarfrest, fyrir mín orð, sagði Egill pent nei.

Tími til kominn

Í þessu ljósi varð ég býsna undrandi þegar fyrirspurn spriklaði í pósthólfinu hjá mér einn morguninn á þessu vori, frá Ingvari Þórðarsyni kvikmyndaframleiðanda með meiru. „Viltu viðtal við Eagle Egilsson?“

Já, auðvitað. Hvar, hvenær?

„Á morgun, hann er á landinu.“

Þetta lét ég ekki segja mér tvisvar og þegar við erum sestir niður á veitingastað Sögusafnsins spyr ég vitaskuld fyrst um þennan viðsnúning. Hvað hefur breyst, hvers vegna er Egill Örn til í viðtal núna?

„Mér fannst bara tími til kominn. Ég er ekki mikið fyrir að hafa mig í frammi en núna þegar verkefni eru framundan hér heima fannst mér við hæfi að þjóðin fengi að kynnast mér aðeins betur,“ segir Egill Örn.

Spurður um téð verkefni verst hann allra frétta. „Þetta eru tvö verkefni. Annað verður alfarið unnið hér heima og ég geri fastlega ráð fyrir að það muni vekja athygli þjóðarinnar. Hitt kem ég með frá Bandaríkjunum. Það er of snemmt að greina efnislega frá þessum verkefnum en það kemur að því.“

Egill Örn glottir út í annað enda veit hann að það er illa gert að segja fréttamanni fréttir en samt ekki.

Það verður að hafa það.

Lægri laun – en samt ekki

Árið var 2004 og niðurstaðan varð sjónvarp. Þriðja þáttaröðin af glæpaþáttunum The Wire var að fara af stað á sjónvarpsstöðinni HBO og umboðsmaðurinn tjáði Agli Erni að aðstandendur þeirra vantaði tökumann. Skotið var á símafundi, þar sem Egill Örn var ráðinn. „Ég var ekki lengi að pakka og fljúga til Baltimore ásamt eiginkonu og börnum. Launin voru miklu lægri, í fjárhagslegum skilningi, en mér stóð á sama. Laun eru ekki bara peningar. Sjónvarpið heillaði mig strax enda möguleikarnir miklir. Á þessum tímapunkti hafði bandarískt sjónvarp af einhverjum ástæðum aldrei litið neitt sérstaklega vel út og það var spennandi að fá tækifæri til að taka þátt í að breyta því.“

Úr því Egill Örn nefnir eiginkonu og börn er ekki úr vegi að biðja hann að gera grein fyrir þeim. Kona hans er bandarísk, Denice Egilsson og börnin þrjú, Egill Cole, sautján ára, Ethan Örn, fimmtán ára og Zoe Rós, tólf ára. Allt gerðarlegir krakkar, að sögn föðurins, en Egill Cole er víst þegar vaxinn föður sínum yfir höfuð. „Þetta eru góðir krakkar og við Denice vorum sammála um að þau fengju öll bæði bandarískt og íslenskt nafn. Þau tala ekki íslensku en eru í góðu sambandi við landið, munu til dæmis koma með mér hingað næst þegar ég kem, í sumar.“

Aftur að sjónvarpinu en þar hefur Egill Örn kynnst mörgu mætu fólki. Breski leikarinn Idris Elba var ein skærasta stjarna The Wire en í lok þriðju seríunnar var hann skrifaður út úr þeim og persóna hans látin deyja. Að sögn Egils Arnar var Elba allt annað en sáttur við þær lyktir mála og furðaði sig á ákvörðun aðstandenda þáttarins í samtali þeirra. „Hvers vegna eru þeir að drepa mig?“ segir Egill Örn og hermir með býsna sannfærandi hætti eftir leikaranum. „Ég sagði honum að hafa ekki áhyggjur af þessu. Þetta væri það besta sem fyrir hann gæti komið. Hann ætti eftir að verða miklu stærri. Og það hefur sýnt sig.“

Egill Örn stýrði kvikmyndatökum á sjö þáttum af The Wire og það spurðist hratt út enda nutu þættirnir geysilegra vinsælda. Árið eftir, 2005, var hann fenginn til að sjá um tæknibrellurnar í kvikmyndinni Flight Plan, þar sem óskarsverðlaunaleikkonan Jodie Foster fór með aðalhlutverkið. „Það var mjög skemmtilegt verkefni.“

Sagði nei við Bruckheimer

Sama ár kom síðan risastórt tækifæri. Símtal kom frá aðstandendum hinna vinsælu sakamálaþátta CSI: Miami en Egill Örn lét sér fátt um finnast í fyrstu enda hafði hann ekki séð þættina á þeim tíma. Framleiðandinn sjálfur, Jerry Bruckheimer, einn valdamesti maðurinn í bandarísku sjónvarpi, hafði horft á efni eftir Egil Örn og vildi ráða hann. „Ég sagði bara pent nei við Bruckheimer,“ segir Egill Örn hlæjandi.

Skömmu síðar var kvikmyndatökustjóra þáttanna sagt upp störfum og þá sneri Bruckheimer sér aftur að Agli Erni sem lét til leiðast. Hann sér ekki eftir því. „CSI: Miami var mjög krefjandi verkefni enda hafði ég frjálsar hendur og breytti útliti þáttarins. Það var með allt öðrum hætti áður en ég kom að verkefninu og leyfi ég mér að segja einstakt á þeim tíma. Eftir því var tekið.“

Egill Örn kveðst hafa hugsað þættina eins og hann væri að gera 30 sekúndna auglýsingu, hver rammi yrði að ríghalda áhorfandanum. Hann sá fyrir sér ævintýraheim sem áhorfendur gætu glaðir dottið inn í eftir langan og strangan vinnudag í raunheimum. „Uppleggið var að þátturinn yrði klukkutíma flótti frá raunveruleikanum.“

Egill Örn var ekki búinn að vinna lengi við CSI: Miami þegar hann fékk eftirfarandi spurningu frá aðstandendum þáttanna: Viltu ekki leikstýra?

„Hvers vegna?“ spurði hann.

„Það er augljóst. Við sjáum hvernig þú vinnur,“ var svarið.

Lestu viðtalið við Egil í heild sinni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Egill segir David Caruso, aðalleikara CSI: Miami vera mikinn höfðingja.
Egill segir David Caruso, aðalleikara CSI: Miami vera mikinn höfðingja.
Egill smellir kossi á systur sína, þingmanninn Þórunni Egilsdóttur.
Egill smellir kossi á systur sína, þingmanninn Þórunni Egilsdóttur. Rax / Ragnar Axelsson
Með Salman heitnum King við gerð myndarinnar Delta of Venus …
Með Salman heitnum King við gerð myndarinnar Delta of Venus í Prag.
Egill Örn með kvikmyndatökuvélina um þær mundir sem hann hóf …
Egill Örn með kvikmyndatökuvélina um þær mundir sem hann hóf störf vestra fyrir aldarfjórðungi.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert