Götumatur undir berum himni

Af Facebook-síðu KRÁS

„Þarna myndast rosalega skemmtileg og jákvæð stemning,“ segir Gerður Jónsdóttir, annar verkefnastjóra KRÁS götumatarmarkaðs í Fógetagarðinum sem opnar á ný í dag eftir að hafa legið í vetrardvala.

Um er að ræða götumatarmarkað þar sem gestir geta keypt rétti frá tólf þekktum veitingahúsum í Reykjavík, en „götumatarútgáfu“ af því sem þeir bjóða upp á venjulega, þ.e. mat í handhægum umbúðum sem hægt er að borða úti, standandi eða sitjandi. Einnig verður hægt að kaupa sér vínglas eða bjór með matnum í góða veðrinu.

Öll flóran í veitingageiranum

„Þetta er öll flóran í veitingageiranum. Við erum með fína staði eins og Kol og Apótekið en einnig veitingastaði sem sérhæfa sig í götumat. Þarna eru kokkar samankomnir til að elda beint ofan í fólkið sem getur svo borðað undir berum himni,“ segir Gerður.

Hver staður býður upp á einn til tvo rétti og segir Gerður hugmyndina vera þá að fólk geti keypt sér nokkra mismunandi rétti frá mismunandi söluaðilum. „Það myndast rosalega skemmtileg stemning í kringum það. Það koma oft saman hópar sem smakka á milli og ræða matinn sem getur verið mjög gaman.“

Fengu sömu hugmyndina

Gerður og Ólafur Örn Ólafsson fengu bæði sömu hugmynd vorið 2014 að halda götumatarhátíð og töluðu við Reykjavíkurborg hvort í sínu lagi. Gerður segir borgina hafa tekið mjög vel í hugmyndina og leitt þau Ólaf saman. Markaðurinn var svo opnaður í fyrsta skipti í lok júlí í fyrra og varð strax mjög vinsæll. „Það var mikil eftirvænting eftir þessu og greinilegt að þetta var eitthvað sem vantaði í borginni,“ segir Gerður.

Markaðurinn var haldinn í fimm skipti síðasta sumar og í framhaldinu var ákveðið að KRÁS væri kominn til að vera. Þá var markaðurinn opnaður aftur eina helgi fyrir jólin í fyrra og síðan hefur undirbúningur fyrir sumarið staðið yfir frá því í vor.

Hönnunarhópurinn XYZ, sem í eru námsmenn í sumarstarfi hjá borginni, hannaði básana og er innan handar varðandi ódýrar en haganlegar útfærslur og lausnir á einu og öðru.

Markaðurinn er opinn kl. 13-18 í Fógetagarði í miðbæ Reykjavíkur, á ská á móti Alþingi. Gerður segir lifandi tónlist verða á svæðinu og góð stemning allan daginn. Opið verður á markaðnum alla laugardaga í júlí og ágúst milli kl. 13.00-18.00.

Frekari upplýsingar er að finna á Facebook-síðu KRÁS.

Ólafur Örn Ólafsson og Gerður Jónsdóttir, sem ásamt Reykjavíkurborg standa …
Ólafur Örn Ólafsson og Gerður Jónsdóttir, sem ásamt Reykjavíkurborg standa að götumatarmarkaðinum KRÁS. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Boðið er upp á götumatarútgáfu af réttum staðanna.
Boðið er upp á götumatarútgáfu af réttum staðanna. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert